Innlent

Segir ráðherra geta haft áhrif á fylgið hjá BF

Sveinn Arnarsson skrifar
Eva Einarsdóttir, formaður framkvæmdastjórnar Bjartrar framtíðar.
Eva Einarsdóttir, formaður framkvæmdastjórnar Bjartrar framtíðar.
Sitt sýnist hverjum innan stjórnar Bjartrar framtíðar um samstarf flokksins við Viðreisn og Sjálfstæðisflokkinn. Fylgi flokksins mælist ríflega þrjú prósent og aðeins rúmur helmingur stuðningsmanna styður ríkisstjórnarsamstarfið.

Eva Einarsdóttir, formaður framkvæmdastjórnar flokksins, segir erfið mál á borði ráðherra flokksins. Ummæli annarra ráðherra hafi áhrif.

„Ég þekki það úr eigin vinnu í borgarstjórn að launamunur kynjanna er til staðar. Því hafa ummæli dómsmálaráðherra um meintan launamun kynjanna haft áhrif á hvernig kjósendahópur okkar horfir til okkar.“

Ekki var einhugur í stjórn BF er ríkisstjórn var mynduð og hefur óánægjan síst minnkað. Eva segir það rétt að málin hafi verið rædd en menn standi enn við bakið á sínu fólki.

„Samtalið við grasrótina er mjög gott og við erum sannfærð um að við eigum meira inni. Nú þurfum við að halda rétt á spilunum fram undan og þá eykst fylgið,“ segir Eva.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×