Innlent

Segir Lyfjastofnun verða af tekjum vegna takmarkana fjárlaga

Ingvar haraldsson skrifar
Forsvarsmenn Lyfjastofnunar eru óánægðir með það fé sem stofnuninni hefur verið skammtað.
Forsvarsmenn Lyfjastofnunar eru óánægðir með það fé sem stofnuninni hefur verið skammtað. vísir/gva
Rannveig Gunnarsdóttir, forstjóri Lyfjastofnunar, er óánægð með að stofnunin fái ekki að nýta það fé sem hún aflar sjálf. Tekjur Lyfjastofnunar hafa verið talsvert umfram það fé sem henni er skammtað af fjárlögum undanfarin ár.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir að sýna þurfi fram á að aukin umsvif Lyfjastofnunar skili sér í auknum tekjum. „Það er álitamál hvort aukin rekstrarumsvif muni á endanum skila sér í auknum sértekjum. Til þess að ríkið sitji ekki uppi með aukin umsvif og engar tekjur þurfa að liggja fyrir trúverðugar áætlanir í samstarfi við velferðarráðuneytið og á það hefur skort,“ segir Bjarni.

Rannveig fullyrðir að Lyfjastofnun hafi orðið af tekjum frá fyrirtækjum vegna valkvæðra verkefna sem hefðu þýtt að stofnunin færi fram úr fjárlögum. „Við erum í samkeppni við aðrar lyfjastofnanir á Evrópska efnahagssvæðinu um vísindaráðgjöf fyrir Lyfjastofnun Evrópu sem við fáum greitt fyrir. Ef verkefnið er ekki unnið á Íslandi tekur lyfjastofnun annars EES-lands að sér matið og fær greitt fyrir.“

Rannveig Gunnarsdóttir, forstjóri Lyfjastofnunar.
Rannveig segir erfitt að ákveða nákvæm fjárlög fyrir stofnunina. „Föst fjárlög henta ekki okkar rekstri. Við vitum ekki fyrir fram hvaða verkefni við fáum. Við höfum ekki val um hvort við sinnum stórum hluta okkar verkefna. Þau verkefni eru oft afgreidd seinna en við vildum.“

Þórhallur Hákonarson, fjármálastjóri Lyfjastofnunar, ritar í nýútkominni ársskýrslu stofnunarinnar að uppi sé „alvarleg staða sem hamlar framþróun stofnunarinnar og getur haft áhrif á lyfjaframboð, auk þess að takmarka þjónustu við lyfjaiðnaðinn í landinu“.

Rannveig tekur undir þessi orð. „Þetta eru verkefni sem veita sérfræðingum störf og skapa verðmæti. Það er hins vegar enginn hvati fyrir okkur að sækjast eftir verkefnum umfram fjárlög,“ segir Rannveig.

Þar að auki bendir Rannveig á að ekki sé búið að fjármagna málaflokkinn lækningatæki, sem Lyfjastofnun tók við í maí 2011. „Þar eru fyrirtæki sem vilja og þurfa þjónustu. Sú þjónusta hefur hins vegar verið í algjöru lágmarki,“ segir Rannveig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×