Innlent

Segir Hraunið algjöra lágkúru

Jakob Bjarnar skrifar
Friðrik Erlingsson segir Hraunið innantóman og sannfæringarlausan þvætting.
Friðrik Erlingsson segir Hraunið innantóman og sannfæringarlausan þvætting.
Friðrik Erlingsson rithöfundur skrifar gallharða ádrepu á kvikmyndavefinn Klapptré, þar sem hann tætir sjónvarpsseríuna Hraunið í sig: „Hún var innantómur, sannfæringarlaus þvættingur. Það var engin persónusköpun, ekkert drama, bara vandræðaleg eftirlíking af margþvældri eftirlíkingu, sem hefur fyrir löngu gengið sér til húðar,“ skrifar Friðrik og dregur hvergi af sér.

Friðrik segir grátlegt hvernig komið er fyrir sjónvarpsþáttagerð á Íslandi, þar eru Danir ljósárum á undan okkur, vegna þess að þeir státa af siðmenningu öfugt við okkur sem erum ameríkanseruð og étum lágkúruna upp frá Bandaríkjunum. Hér skortir allt sem heitir sannfæring og erindi. „Hvers vegna reynum við ekki að horfast í augu við það hver við erum – eða í það minnsta: Því getum við ekki hætt að þykjast vera það sem við erum ekki? Ég get á augabragði nefnt það sem vel hefur verið gert hér á landi í sjónvarpsþáttaröðum að mínu mati, það eru ‘Vaktaseríurnar’, ‘Ástríður’ og ‘Pressa’ – í þessari röð. Restin er langt undir meðallagi, flest af því lágkúra.“

Grein Friðriks er löng og hlýtur að vekja forvitni flestra áhugamanna um kvikmyndagerð og íslenskt sjónvarp. Höfundur segist ekki óttast það að móðga menn, hann vonar að svo verði ef það má verða til að vekja menn til lífsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×