Innlent

Segir gagnrýni á Barbershop-ráðstefnu byggða á misskilningi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra.
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra. Vísir/Daníel
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, er í viðtali við breska blaðið Independent í dag. þar svarar hann gagnrýni sem komið hefur fram á ráðstefnuna Barbershop, eða Rakarastofuna, sem fara á fram í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í janúar á næsta ári.

Margir gagnrýndu ráðstefnuna og sögðu það skjóta skökku við að ræða um kynjajafnrétti og ofbeldi gegn konum, án þess að bjóða konum að taka þátt í umræðunni.

Í viðtalinu við Independent segir Gunnar Bragi að mest allt af gagnrýninni sem kom fram varðandi ráðstefnuna hafi verið byggt á misskilningi. Hann segir að konum verði ekki bannað að koma á ráðstefnuna, þvert á móti séu þær velkomnar þangað.

„Hvað er rakarastofa? Það er staður þar sem menn hittast, þeir fara í klippingu eða láta snyrta á sér skeggið. Hvað tala þeir um? Stjórnmál, líklega um konur, stöðu sína og svo framvegis.

„Við viljum gera rakarastofuna að stærra herbergi. Hugsaðu um þessi týpísku umræðuefni sem eru rædd í búningsklefum eða á rakarastofum; það þarf að breyta umræðunni þar.“

Gunnar Bragi segir í viðtalinu að karlmenn og strákar þurfi að láta til sín taka í umræðunni um kynjajafnrétti og ofbeldi gegn konum, annars muni ekkert breytast.

Viðtalið við Gunnar Braga í Independent má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×