Fótbolti

Sara Björk í viðtali hjá sænska útvarpinu - sló í gegn í framlínunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir.
Sara Björk Gunnarsdóttir. Mynd/Daníel
Sara Björk Gunnarsdóttir sló í gegn í fyrsta heimaleiknum sínum með LdB FC Malmö þegar hún skoraði þrennu í 3-1 sigri á Hammarby í sænsku úrvalsdeildinni í gærkvöldi. Sara Björk sem er vön því að spila á miðjunni blómstraði þarna í stöðu framherja.

Sara Björk var í útvarpsviðtali hjá sænska ríkisútvarpinu eftir leikinn og þar tók útvarpsmaðurinn það fram að hún væri aðeins búin að vera í þrjár vikur í Svíþjóð og því færi viðtalið fram á ensku.

„Ég var smá stressuð fyrir leikinn því þetta var fyrsti heimaleikurinn minn en það er bara gott að vera smá stressuð fyrir leiki," sagði Sara Björk sem skoraði öll þrjú mörkin sín í seinni hálfleiknum eftir að Hammarby hafði komist yfir í leiknum.

„Við vorum óánægðar með fyrri hálfleikinn hjá okkur því við spiluðum ekki vel og sendingarnar voru ekki góðar. Það var gott hjá okkur að koma til baka í seinni hálfleik og skora þrjú mörk. Við fengum reyndar líka færi í fyrri hálfleik en þetta var góð endurkoma hjá okkur," sagði Sara,

„Ég mér fannst annað markið mitt vera það fallegasta. Ég fékk þá góða sendingu frá Fridu og náði að hitta boltann vel," sagði Sara.

„Ég veit ekki hvort ég verð markadrottning á þessu tímabili. Ég fæ að spila þessa stöðu og fékk tækifæri til þess að skora þessi mörk. Ég er viss um að ef Melis hefði spilað þessa stöðu þá hefði hún líka skorað úr þessum færum," sagði Sara en Manon Melis varð markadrottning deildarinnar á síðasta tímabili.

„Ég átti góðan leik í dag og vonandi næ ég líka að spila vel í næsta leik. Ég hef ekki verið að spila sem framherji heldur sem miðjumaður en það var frábært að ná að skora þrjú mörk," sagði Sara í þessu viðtalið við Radiosporten.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×