Innlent

Samtök krefja MAST um málsgögn

Svavar Hávarðsson skrifar
Neytendasamtökunum og SVÞ er nóg boðið og krefja MAST um svör.
Neytendasamtökunum og SVÞ er nóg boðið og krefja MAST um svör. vísir/daníel

Neytendasamtökin og Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) hafa sent sameiginlegt erindi til Matvælastofnunar (MAST) þar sem óskað er upplýsinga frá stofnuninni um öll alvarleg frávik í innlendri eftirlitsskyldri matvælaframleiðslu sem hún hefur gert athugasemdir við í eftirlitsstörfum sínum.

Fréttablaðið sendi MAST áþekka fyrirspurn miðvikudaginn 30. nóvember þar sem óskað var eftir gögnum er varða fyrirtæki sem hafa fengið ítrekaðar athugasemdir frá MAST. Þeirri fyrirspurn var hafnað samdægurs.

Tilefni erindisins er brúneggjamálið sem upplýst var um í Kastljósi nýverið, en í fréttatilkynningu segir að MAST hafi alfarið brugðist í eftirlitshlutverki sínu. „Þrátt fyrir að starfsemin hafi verið til skoðunar hjá MAST í tæp tíu ár og aðfinnslur hafi verið gerðar við þá starfsemi var hvorki verslun né neytendum veittar upplýsingar um þá meinbugi sem nú hafa komið í ljós. ,“ segir þar, en enn fremur segir að umfjöllun undanfarið hafi orðið til þess fallin að vekja upp áleitnar spurningar um matvælaeftirlit MAST og það traust sem á að ríkja um eftirlitsstarfsemi stofnunarinnar.

Þá sé gagnrýnivert að hagsmunir innlendrar matvælaframleiðslu hafi alfarið vikið til hliðar hagsmunum neytenda og verslana af því að fá upplýsingar um eftirlitsskylda starfsemi og þær vörur sem frá þeirri starfsemi berast. Að óbreyttu sé nú uppi viðvarandi brestur á trausti hagsmunaaðila hvað varðar eftirlit með matvælaframleiðslu, sér í lagi þar sem MAST hefur heimilað afhendingu á matvælum til verslana og neytenda þrátt fyrir að búa yfir upplýsingum um margvísleg brot gegn löggjöf um matvæli og aðbúnað dýra. 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×