Fótbolti

Sammer: Guardiola er svolítið klikkaður

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Klikkaður? Ég?
Klikkaður? Ég? vísir/getty
Matthias Sammer, yfirmaður knattspyrnumála hjá Þýskalandsmeisturum Bayern München, segir að Pep Guardiola, þjálfari liðsins, sé svolítið klikkaður en engu að síður sé gaman að vinna með honum.

Sammer, fyrrverandi Evrópumeistari með Dortmund og Þýska landsliðinu, skrifaði undir nýjan þriggja ára samning við Bayern í vikunni, en á Allianz-vellinum hefur allt verið í blóma undanfarin misseri.

„Guardiola er snillingur sem þjálfari og svolítið klikkaður en á jákvæðan hátt. Eina sem ég get sagt er að það er mjög gaman að eltast við leikmenn með honum. Það er yndislegt að vinna með Guardiola,“ sagði Sammer eftir undirskriftina.

Phillip Lahm, fyrirliði Bayern München, meiddist illa á dögunum og segir Sammer að nú verði þeir sem hafa fengið minna að spila að nýta tækifærið.

„Það var áfall að heyra fréttirnar því Phillip hefur haft svo mikil áhrif á liðið sem fyrirliði. Við óskum honum alls hins besta og vonum að hann verði í lagi. En nú þýðir ekkert að vera sorgmæddur. Við þurfum bara að taka okkur taki og horfa fram á veginn,“ sagði Sammer.

„Við erum með nógu stóran hóp og erum að fá menn eins og Bastian Schweinsteiger aftur líkt og Thomas Müller sem meiddist aðeins í vikunni. Nú mun þjálfarinn tala við Bastian því hann er reynslumikill. Hann verður klár bráðum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×