Innlent

Samfélagsverðlaunin í 10. sinn

ingibjörg bára sveinsdóttir skrifar
Klúbburinn Geysir, sem var handhafi Samfélagsverðlaunanna í fyrra, hlaut 1,2 milljónir króna. Sama upphæð verður veitt í ár.
fréttablaðið/stefán
Klúbburinn Geysir, sem var handhafi Samfélagsverðlaunanna í fyrra, hlaut 1,2 milljónir króna. Sama upphæð verður veitt í ár. fréttablaðið/stefán
Opnað hefur verið fyrir tilnefningar til Samfélagsverðlauna Fréttablaðsins á vef Vísis en verðlaunin verða veitt í tíunda sinn í vor. Fréttablaðið skorar á lesendur að senda inn tilnefningar til verðlaunanna. Til greina koma allir sem hafa lagt sitt af mörkum til að bæta íslenskt samfélag, jafnt þekktir sem óþekktir einstaklingar eða félagasamtök sem hafa verið öðrum fyrirmynd með gjörðum sínum og athöfnum.

Eins og áður eru verðlaunin veitt í fimm flokkum. Í flokknum Hvunndagshetjan koma til greina einstaklingar sem sýnt hafa óeigingirni í tengslum við einn atburð eða með vinnu að ákveðnum málaflokki í lengri tíma. Í flokknum Frá kynslóð til kynslóðar er leitað að kennurum eða öðrum uppfræðurum. Þá koma einnig til greina félagasamtök sem sinna börnum af metnaði. Til atlögu gegn fordómum er flokkur einstaklinga eða félagasamtaka sem með starfi sínu stuðla að því að draga úr fordómum í samfélaginu. Heiðursverðlaun eru veitt fyrir ævistarf sem stuðlað hefur að betra samfélagi. Samfélagsverðlaunin eru veitt félagasamtökum sem vinna framúrskarandi mannúðar- eða náttúruverndarstarf.

Í dómnefnd sitja Kristín Þorsteinsdóttir, útgefandi og aðalritstjóri Fréttablaðsins, Guðrún Ögmundsdóttir, fv. alþingismaður, og Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×