Íslenski boltinn

Samba á Samsung-vellinum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Poliana í leik með Brasilíu gegn Spáni á HM í sumar.
Poliana í leik með Brasilíu gegn Spáni á HM í sumar. vísir/getty
Íslands- og bikarmeistarar Stjörnunnar ætla sér stóra hluti á seinni helmingi tímabilsins en Garðabæjarliðið er búið að fá fjóra leikmenn í félagaskiptaglugganum.

Nú síðast bættist brasilíska landsliðskonan Poliana Barbosa Medeiros í hópinn. Frá þessu var greint á Fótbolta.net í kvöld.

Poliana þessi er 24 ára gamall varnarmaður sem var í leikmannahópi Brasilíu á HM í Kanada í sumar. Hún lék tvo leiki á HM en Brasilía féll úr leik fyrir Ástralíu í 16-liða úrslitum.

Poliana lék einnig með brasilíska landsliðinu á Pan American leikunum þar sem Brasilía stóð uppi sem sigurvegari eftir 4-0 sigur á Kólumbíu í úrslitaleik á laugardaginn.

Hjá Stjörnunni hittir Poliana fyrir löndu sína, Francielle Manolo Alberto, sem hefur farið vel af stað með Garðabæjarliðinu og skorað fjögur mörk í fyrstu þremur leikjum sínum fyrir félagið.

Auk þessara brasilísku landsliðskvenna eru Rachel S. Pitman og Jaclyn Nicole Softli komnar til Stjörnunnar í glugganum.

Framundan er stíft prógramm hjá Stjörnunni en liðið leikur sjö leiki á 24 dögum í ágúst; í deild, bikar og forkeppni Meistaradeildar Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×