Innlent

Sala hvalkjöts er í uppnámi

MYND/víkurfréttir

Lítill sem enginn markaður er fyrir hvalkjöt í Japan, samkvæmt forstöðumanni innflutningsfyrirtækisins Asian Trading Co. Ltd. í Japan. Fyrirtækið hefur verið aðalkaupandi afurða Hvals hf. í Japan.

Forstöðumaðurinn segir að fyrir­tækið ætli ekki að flytja inn hvalkjöt frá Íslandi í ár. Þetta kemur allt fram í upptöku af símasamtali milli manns frá Greenpeace og forstöðumannsins frá því 7. maí, sem Fréttablaðið hefur undir höndum.

Í samtalinu segir forstöðu­maður­inn að Japanar borði lítið sem ekkert hvalkjöt lengur og unga fólkið sé afhuga því. Neysla á hvalkjöti er um 4.000 tonn árlega í Japan, samkvæmt forstöðumanninum, þar með talin neysla á höfrungum.

Kristján Loftsson, framkvæmdastjóri Hvals, segir að ætlunin sé að selja allar langreyðarnar til Japans í gegnum Asian Trading. Um 150 langreyðar á að veiða, sem gera a.m.k. um 6.000 tonn. Í fyrra flutti Hvalur hf. um 80 tonn til Japan í gegnum Asian Trading.

„Það geta allir deilt um það til eilífðar hvað Japanar borða mikið á ári," segir Kristján. Hann segir lægð vera í efnahagnum í Japan sem stendur og verð hafi lækkað, en hann hafi ekki áhyggjur af því að enginn markaður sé í Japan.

„Menn eru ekki að hugsa bara til ársins í ár heldur til framtíðar. Að komast í gang eftir svona langan tíma er mjög dýrt," segir Kristján.

Kristján segist hafa talað við forstöðumann Asian Trading og hann hafi neitað því að hafa talað við Greenpeace.

„Ef þetta er samtal við hann þá er þetta eitthvað sem Greenpeace hefur búið til. Þeir vinna þannig," segir Kristján.

Í samtali við Fréttablaðið staðfesti maðurinn, sem Greenpeace segist hafa talað við, að hann væri forstöðumaður Asian Trading. Hann vildi hins vegar ekki tjá sig frekar um málið.

Nokkrir félagar í Greenpeace komu til Íslands í gær, sunnudag, til að eiga fund með stjórnvöldum og stjórnmálamönnum.

„Ástæða þess að við erum að koma er að við viljum sýna stjórnvöldum fram á að það sé enginn markaður fyrir hvalkjöt í Japan," segir Wakao Hanaoka hjá Greenpeace í Japan, sem átti samtalið við forstöðumann Asian Trading fyrir hönd samtakanna.- vsp





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×