Lífið

Safnar fyrir náminu með tónleikum í Dómkirkjunni

Baldvin Þormóðsson skrifar
Hrafnhildur Marta safnar fyrir náminu með tónleikum.
Hrafnhildur Marta safnar fyrir náminu með tónleikum. vísir/daníel
„Ég er nýkomin inn í þennan skóla ásamt kærastanum mínum sem er fiðluleikari,“ segir hin unga og efnilega Hrafnhildur Marta Guðmundsdóttir sellóleikari, en hún komst nýverið inn í Jacob's School of Music við Indiana-háskóla.

Hrafnhildur hefur spilað á selló síðan hún var lítil en hún kynntist kærasta sínum, Guðbjarti Hákonarsyni, þegar þau voru bæði í tónlistarnámi við Listaháskóla Íslands.

„Við sóttum um í Kaupmannahöfn og Bandaríkjunum og komumst bæði inn í báða skólana,“ segir Hrafnhildur glöð í bragði. „Við ákváðum síðan bara að stökkva í djúpu laugina og fara til Bandaríkjanna.“

Hrafnhildur og Guðbjartur hafa spilað mikið saman og í sumar fengu þau það verkefni hjá Skapandi sumarstörfum að spila tónlist úti á götum í miðbænum sem Dúettinn Par.

„Við spiluðum líka á Hrafnistu, Grund, Grensás og Hlíðarbæ sem er heimili fyrir heilabilaða,“ segir Hrafnhildur. „Okkur langaði líka að fara með tónlistina til þeirra sem ekki geta verið úti á götu.“

Hrafnhildur heldur styrktartónleika í kvöld í Dómkirkjunni fyrir skólagjöldunum úti en þar mun ekki verða neinn aðgangseyrir heldur aðeins tekið á móti frjálsum framlögum.

„Það eru margir að nota klósettpappír og sælgætissölu fyrir fjáröflun en ég ákvað bara að bjóða fólki upp á tónleika í staðinn,“ segir Hrafnhildur og hlær en tónleikarnir hefjast klukkan 20.00 í Dómkirkjunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×