Lífið

Safnar fé fyrir skimunarprófi

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
Jóhannes hvetur landsmenn til að taka vel á móti söfnunarfólki um næstu helgi.
Jóhannes hvetur landsmenn til að taka vel á móti söfnunarfólki um næstu helgi. Fréttablaðið/Stefán
„Það eru fimmtíu og tveir einstaklingar sem deyja hér á landi úr ristilkrabba á ári og ég er sannfærður um að hægt er að lækka þá tölu með forvörnum eins og skimun og ristilspeglun,“ segir Jóhannes V. Reynisson, forsprakki átaksins Bláa naglans.

Hann er að hrinda af stað landssöfnun til ágóða fyrir krabbameinsrannsóknir og forvarnir. Að þessu sinni er ætlunin að safna fé fyrir skimunarprófi sem verður sent til allra sem verða fimmtugir á árinu 2015 og árlega eftir það til 2017 í það minnsta.

Að auki verður haustráðstefna á vegum Bláa naglans þann 20. september á Grand Hóteli í Reykjavík þar sem færustu sérfræðingar halda erindi um ýmislegt varðandi rannsóknir og meðferðir á krabbameini hérlendis – „á mannamáli,“ lofar Jóhannes.

Ráðstefnan er opin almenningi án endurgjalds, meðan húsrúm leyfir, en nauðsynlegt er að skrá þátttöku á heimasíðu Bláa naglans www.blainaglinn.is . Dagskrá ráðstefnunnar er á heimasíðunni.

En af hverju heitir átakið Blái naglinn?

„Ég fór sjálfur undir hnífinn árið 2012 og eftir aðgerðina fór ég til Dubai af því sonur minn var þar fimleikaþjálfari. Ég var þarna í hálfan mánuð í afslöppun og varð hugsað til bleiku slaufunnar. En sagði við sjálfan mig: „Þú ert ekki slaufutýpa.““ lýsir Jóhannes.

„Þegar ég kom heim úr hitanum syðra fór ég beint í Húsasmiðjuna að kaupa mér sex tommu nagla og spreyjaði þá bláa. Svona byrjaði þetta.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×