Lífið

Rússar afar hrifnir af íslenskum snyrtivörum

Adda Soffía Ingvarsdóttir skrifar
Karin Kristjana Hindborg, eigandi Nola.is
Karin Kristjana Hindborg, eigandi Nola.is Vísir/Íris Dögg Einarsdóttir
Karin Kristjönu Hindborg, dreifingaraðili fyrir hálfíslenska snyrtivörumerkið Skyn Iceland og eigandi nola.is, var á dögunum boðið til Rússlands að kynna línuna fyrir hönd framleiðenda í Bandaríkjunum.

„Þetta var alveg frábær ferð. Ég kynntist fullt af fólki sem tengist förðunar- og tískubransanum,“ segir Karin. Meðal þeirra voru Elena Krygina, einn fremsti förðunarfræðingur Rússlands, og sjónvarpsstjarnan Andre Malakov, sem má segja að sé hin rússneska Oprah Winfrey, en hann ætlar að heimsækja Ísland í janúar.

Skyn Iceland verður meðal annars selt í vefverslun úti sem selur aðrar íslenskar vörur eins og Unu, Sóleyju og Purity Herbs. Að auki verður Skyn selt á snyrtistofunni hjá Büro beauty, þar sem ríka og fræga fólkið í Rússlandi er fastir gestir. Eigandi stofunnar er Miroslava Duma, fyrrverandi ritstjóri rússneska Harpers Bazaar. „Rússarnir eru alveg óðir í íslensku vörurnar. Þeim finnst Ísland svo ótrúlega heillandi og hreint og mér fannst skína í gegn hvað þeir virðast bera mikla virðingu fyrir Íslandi,“ segir Karin.

Auk þess að kynna Skyn Iceland hitti Karin snyrtiritstjóra rússnesku útgáfu tímaritsins Vogue og gerði myndbandsþátt með henni sem fer á heimasíðu þeirra. „Þar sem þau halda ekki upp á jólin, bara nýja árið, þá gerði ég „how-to“ myndband með léttri áramótaförðun fyrir þau með áherslu á húðina og mikilvægi þess að undirbúa húðina fyrir förðun,“ segir Karin. Ferðin tók þrjá daga og var mikil keyrsla.

„Mér skilst að ég sé ekki búin að upplifa Rússland, einungis Moskvu, og það er ekki það sama. Ég hélt að ég myndi sjá mikla fátækt og eymd, það litla sem ég náði að upplifa utan vinnu var hástéttin, það er mikið af ríku fólki í Moskvu og verslanir eftir því. Mesta menningarsjokkið sem ég upplifði var sennilega að sjá mann með Nokia 5110 síma á lestarstöðinni,“ segir Karin aðspurð um aðstæður í Rússlandi. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×