Íslenski boltinn

Rúnar Páll um Ólaf Karl: Ef þetta var agamál þá segi ég ykkur ekki frá því

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rúnar Páll Sigmundsson á bekknum í kvöld.
Rúnar Páll Sigmundsson á bekknum í kvöld. vísir/pjetur
Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, var skiljanlega ósáttur við frammistöðu sinna manna eftir leikinn gegn Breiðabliki í kvöld. Hann vildi þó engu svara um stöðu Ólafs Karls Finsen sem var óvænt ekki í byrjunarliðinu í kvöld.

„Þetta eru gríðarleg vonbrigði. Við vorum hrikalega slakir í þessum leik og Blikarnir hleyptu okkur einfaldlega ekki inn í leikinn. Þeir voru bara miklu betri en við.“

„Við ætluðum að setja pressu á þá í upphafi leiks en það gekk bara ekki eftir,“ sagði Rúnar Páll enn fremur. „Þeir dældu boltanum fram og við lentum í vandræðum með það. Að sama skapi náðum við ekki að koma boltanum á milli manna og sköpuðum okkur ekki eitt einasta færi.“

Rúnar var spurður hvort að þetta hafi verið slakasti leikur Stjörnunnar undir hans stjórn. Hann hló að því.

„Þú getur haft það þannig ef þú vilt. En Blikarnir voru bara hrikalega sterkir. Okkur var rækilega kippt niður á jörðina og við áttum það skilið miðað við frammistöðuna í kvöld.“

Ólafur Karl Finsen, sem hefur verið lykilmaður í liði Stjörnunnar, var ekki í byrjunarliðinu í kvöld en kom inn á í upphafi síðari hálfleiks. Rúnar Páll neitaði því að hann hafi verið settur úr byrjunarliðinu vegna agabanns.

„Nei, það var ekkert svoleiðis. Það er bara okkar mál,“ sagði Rúnar Páll. Fyrir stuttu birtist myndband á Fótbolti.net þar sem að Ólafur Karl sést læðast inn í búningsklefa Breiðabliks og stela til að mynda skóm Gunnleifs Gunnleifssonar.

„Ég hef enga skoðun á því [þessu myndbandi],“ sagði Rúnar Páll aðspurður um málið og neitaði aftur fyrir að málið tengdist því að Ólafur Karl byrjaði ekki í kvöld.

„Það tengist því ekki neitt. Og jafnvel þó svo að það myndi tengjast þá myndi ég ekki segja ykkur það. Það er bara svoleiðis.“

„Óli er mjög mikivægur leikmaður fyrir okkur. Það er ekkert launungarmál.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×