Íslenski boltinn

Rúnar Páll: Viðhorf leikmanna er ekki í lagi

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Rúnar Páll Sigmundsson.
Rúnar Páll Sigmundsson. vísir/vilhelm
„Mér fannst við vera á hælunum mest allan leikinn. Töpuðum mikið af návígjum og urðum undir í baráttunni,“ segir Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir tapið gegn ÍBV í Borgunarbikarnum í kvöld.

Hvernig stendur á því að hann nær mönnum ekki upp af hælunum í bikarleik á heimavelli?

„Það er góð spurning. Við vorum búnir að undirbúa okkur vel og menn voru kannski komnir í frí. Það er frí um helgina og langt í næsta leik. Það leit þannig út. Ef menn spila svona þá verða þeir ekki mikið meira í liðinu. Menn þurfa að standa sig til þess að halda sér í þessu liði. Það eru menn fyrir utan sem vilja spila og það er gríðarleg samkeppni um sæti í liðinu hjá okkur.“

Þetta var þriðja tap Stjörnumanna í röð. Hvernig ætlar Rúnar að bregðast við þessu?

„Mér fannst viðhorfið fyrst og fremst ekki vera í lagi í dag. Menn komu ekki klárir í leikinn. Það vantar ekkert upp á gæði leikmanna hér. Það er viðhorfsvandamál að vinna ekki fyrsta eða annan bolta,“ segir Rúnar ósáttur við sína menn en axlar líka ábyrgð á þessari niðursveiflu.

„Maður er svo svekktur því ég veit hvað þessir strákar geta. Ég vil fá miklu meira út úr mannskapnum. Ég þarf kannski að horfa á hvað ég sé að gera rétt og rangt. Ég ætla ekki að dúndra allri sökinni á drengina. Þetta er eitthvað sem ég þarf líka að taka ábyrgð á og ég geri það.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×