Íslenski boltinn

Rúnar Már afgreiddi KR-inga út í Sviss

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rúnar Már Sigurjónsson í fyrri leiknum.
Rúnar Már Sigurjónsson í fyrri leiknum. vísir/anton brink
Íslenski landsliðsmaðurinn Rúnar Már Sigurjónsson fór heldur betur illa með landa sína í kvöld en hann átti frábæran leik þegar liðs hans Grasshopper sló KR-inga út úr forkeppni Evrópudeildarinnar.

Rúnar Már Sigurjónsson skoraði bæði mörk svissneska liðsins í 2-1 sigri á KR en Grasshopper vann þar með samanlagt 5-4. Grasshopper mætir Apollon Limassol frá Kýpur í 3. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar.

Rúnar Már kom Grasshopper í 1-0 á lokamínútu fyrir hálfleiks en Morten Beck Andersen jafnaði metin eftir aðeins sjö mínútna leik í seinni hálfleik.

Morten Beck Andersen var þarna að skora í þriðja leiknum í röð en hann skoraði tvö mörk í fyrri leiknum og varð markahæsti KR-ingurinn í Evrópukeppninni í ár.

Rúnar Már Sigurjónsson var ekki hættur. Íslenski miðjumaðurinn var aftur á ferðinni á 68. mínútu þegar hann kom Grasshopper í 2-1 en Rúnar var búinn að vera KR-ingum afar erfiður allan leikinn.

Eftir að Rúnar Már kom Grasshopper yfir þurftu KR-ingar að skora tvö mörk til þess að komast áfram. KR-liðið kom boltanum reyndar í markið en það var dæmt af vegna brots í teignum. KR tókst ekki að skora fleiri mörk og Evrópuævintýri Vesturbæinga er á enda.

Rúnar Már lagði líka upp eitt marka Grasshopper í 3-3 jafntefli í fyrri leiknum á KR-vellinum en þetta voru hans fyrstu keppnisleikir með liðinu síðan að Svisslendingarnir keyptu hann frá Sundsvall í Svíþjóð.  

Tap KR í kvöld þýðir að öll íslensku karlaliðin eru úr leik í Evrópukeppnunum í ár en FH féll úr leik í forkeppni Meistaradeildarinnar í gær.

Þetta var fyrsta tap KR-liðsins síðan að Willum Þór Þórsson tók við þjálfun liðsins af Bjarna Guðjónssyni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×