Fótbolti

Rúnar Kristinsson um 6-1 tap: Menn þurfa að koma hausnum í stand

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Rúnar Kristinsson hefur leik í norsku úrvalsdeildinni 7. apríl.
Rúnar Kristinsson hefur leik í norsku úrvalsdeildinni 7. apríl. mynd/skjáskot af vef LSK.no
Rúnar Kristinsson og lærisveinar hans í Lilleström fengu þokkalegan skell í æfingaleik gegn Odd, 6-1, um síðustu helgi.

Þó um æfingaleik sé að ræða eru tölurnar áhyggjuefni þar sem aðeins eru um tvær vikur þar til Lilleström mætir Start í Íslendingaslag í fyrstu umferð norsku úrvalsdeildarinnar.

„Strákarnir sögðu að þeir væru þreyttir. Ég veit ekki af hverju það var en við þurfum að spila miklu betur. Það er mikið sem við þurfum að laga en það munum við gera. Ég talaði við hvern og einn leikmann eftir leikinn,“ segir Rúnar í viðtali við heimasíðu Lilleström, en þar er hann spurður að því hver á að skora mörkin í sumar?

„Við erum með nokkra menn sem geta skorað. Moryké Fofana er búinn að skora fjögur mörk í æfingaleikjunum hingað til. Erling hefur ekki spilað ennþá en við vonumst til að hann geti skorað mörg mörg eins og í fyrra.“

„Svo erum við með Árna Vilhjálmsson og Fred Thursday sem geta báðir skorað. Ég vona að við verðum með nokkra menn sem skora 6-10 mörk í staðinn fyrir að binda vonir okkar við einn mann,“ segir Rúnar.

Auk Árna er Finnur Orri Margeirsson á mála hjá Lilleström. Þeir halda til Drammen um helgina og mæta öðru stórliði í Noregi, Strömsgodset, í æfingaleik.

„Við þurfum að koma hausnum í stand hjá strákunum. Við verðum að leggja meira á okkur saman, bæði leikmenn og þjálfarar. Við munum gefa Strömsgodset góðan leik. Það verður samt erfiður leikur en ég er viss um að strákarnir gefa allt sitt í þann leik,“ segir Rúnar Kristinsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×