Íslenski boltinn

Rolf Toft samdi við Víking til tveggja ára

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Rolf Toft tekur Veigar Pál ekki oftar á háhest.
Rolf Toft tekur Veigar Pál ekki oftar á háhest. vísir/andri marinó
Pepsi-deildar lið Víkings hefur náð samningum við danska framherjann Rolf Toft, samkvæmt heimildum Vísis, og spilar hann með liðinu í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.

Toft kom til Stjörnunnar í stað Jeppe Hansen þegar félagaskiptaglugginn var opnaður síðasta sumar, en hann skoraði sex mörk í ellefu leikjum í Pepsi-deildinni og tvö mörk í þremur Evrópuleikjum.

Daninn gerði samning við Stjörnuna út tímabilið og ákvað að semja ekki aftur við Íslandsmeistarana.

Hann ætti að styrkja sveit Víkinga mikið, en Fossvogsliðið leikur í Evrópukeppni í fyrsta sinn í 23 ár eftir að hafna í fjórða sæti Pepsi-deildarinnar á síðustu leiktíð.

Uppfært: 11.56

Víkingar hafa sent frá sér fréttatilkynningu þar sem þeir staðfesta að Rolf Toft er búinn að semja við félagið til tveggja ára.

„Knattspyrnudeild Víkings hefur samið við danska framherjann Rolf Toft um að leika með félaginu næstu 2 árin.  Rolf sem er 22 ára gamall lék með Stjörnunni síðastliðið sumar og skoraði 6 mörk í 11 deildarleikjum fyrir Íslandsmeistarana auk þess sem hann skoraði gríðarlega mikilvægt sigurmark gegn Lech Poznan í Evrópukeppninni síðastliðið sumar. Áður lék Rolf fyrir AaB og Vejle BK í heimalandinu.

Knattspyrnudeild Víkings lýsir yfir mikilli ánægju með þennan liðsstyrk og hlakkar til að njóta krafta hans næstu tvö árin,“ segir í fréttatilkynningu Víkinga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×