Innlent

Ritstjóri Kvennablaðsins skráður fyrir léninu Sykur.is

Bjarki Ármannsson skrifar
Steinunn Ólína er skráður rétthafi Sykurs.is sem uppskorið hefur gagnrýni fyrir skrif og efnistök.
Steinunn Ólína er skráður rétthafi Sykurs.is sem uppskorið hefur gagnrýni fyrir skrif og efnistök. Vísir/Valli
Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, ritstjóri Kvennablaðsins, er skráður rétthafi nýja vefmiðilsins Sykur.is sem vakið hefur athygli að undanförnu fyrir skrif sín og efnistök. Hefur vefurinn verið gagnrýndur harðlega í bæði ummælakerfum samskiptamiðla og í nýlegri grein á vefritinu Knúz fyrir pistlaskrif, sem mörgum þykir beinlínis bera vott um kvenfyrirlitningu.

DV greindi fyrst frá málinu en ganga má úr skugga um eignarhald Sykur.is í lénaskrá ISNIC. Á vefnum má finna greinar á borð við „Hlutir sem þú ættir ekki að gera svo kærastinn þinn sjái til,“ „Hlutir sem menn vilja heyra í rúminu“ og „9 algeng atriði við útlit kvenna sem pirra karlmenn.“ Fjölmargir lýsa yfir vanþóknun á þessum greinum í ummælakerfum og segja þær bera vott um gamaldags viðhorf í garð kvenna.

Kvennablaðið var stofnað í fyrra að fyrirmynd samnefnds dagblaðs sem kvenréttindafrömuðurinn Bríet Bjarnhéðinsdóttir, langamma Steinunnar Ólínu, stofnaði í kringum aldamótin 1900. Ekki náðist í Steinunni Ólínu við vinnslu fréttarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×