Lífið

Ritlistarnemar gefa út jólabók

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Þema Jólabókarinnar 2014 er jólaminningar.
Þema Jólabókarinnar 2014 er jólaminningar. Vísir/GVA
„Þetta er í þriðja skipti sem hún kemur út og er gleðilegur jólagjörningur ritlistarnema á meistarastigi við Háskóla Íslands,“ segir Sunna Dís Másdóttir. Hún er ritstjóri Jólabókarinnar 2014 sem Blekfjelagið, nemendafélag meistaranema í ritlist, gefur út.

Sögurnar í Jólabókinni eru 31 talsins, ein fyrir hvern dag í desember og er hver saga 98 orð. „Fyrsta árið var hver saga hundrað orð, alveg bara akkúrat. Í fyrra voru þær 99 orð og í ár 98 orð,“ segir hún glöð í bragði.

„Við vonum náttúrulega að þetta haldi áfram að eilífu og hlökkum mikið til þess að lesa bókina eftir fimmtíu ár. Eftir níutíu ár verður hún orðin mjög minímalísk.“ Þemað í ár er jólaminning en Sunna segir túlkunina persónulega og allan gang á því hversu sannsögulegar sögurnar eru.

Höfundarnir, sem eru jafn margir og sögurnar, fengu sex daga til þess að skila sögu inn í prófatíð en Sunna segir það ekki hafa komið að sök. „Kosturinn við prófatíð er að allir eru illa haldnir af frestunaráráttu,“ segir hún hlæjandi og bætir við: „Þetta kom bara í staðinn fyrir að skipuleggja sokkaskúffuna.“

Útgáfuhóf Jólabókarinnar 2014 verður í dag og hefst klukkan sex í Mengi en Jólabókin 2014 kemur í takmörkuðu upplagi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×