Lífið

Reynir að vera ekki með stæla á barnum

Álfrún Pálsdóttir skrifar
Bergur Gunnarsson getur bráðum titlað sig bruggmeistara.
Bergur Gunnarsson getur bráðum titlað sig bruggmeistara. Visir/Andri Marinó
„Mér finnst náttúrulega bjór mjög bragðgóður, eins og mörgum,“ segir Bergur Gunnarsson sem innan tíðar getur titlað sig bruggmeistara en hann er að ljúka meistaranámi í bruggunar- og eimunarvísindum frá Heriot Watt-háskólanum í Edinborg.

Bergur er menntaður efnafræðingur og var að leita sér að námi eftir útskrift. Þegar hann fann þetta tiltekna nám í Edinborg á netinu var hann ekki lengi að hugsa sig um.

„Þetta er í raun þriggja anna meistaranám og mun fræðilegra en ég bjóst við. Enda eru mikil vísindi í kringum þetta allt saman,“ segir Bergur en námið miðast við áfengisgerð með sérstaka áherslu á bjór.

Bergur er þessa dagana að vinna í meistaraverkefni sínu en þar gerir hann viðskiptaáætlun fyrir opnun brugghúss á Íslandi.

„Það yrði ákveðinn draumur að geta opnað sitt eigið brugghús hér á landi. Það er hins vegar dýrt enda skattarnir á áfengi háir og maður þarf að flytja humlana og byggið til ölgerðar sérstaklega inn. En það er langtímamarkmið hjá mér.“

Aðspurður hvort þessi tilvonandi bruggmeistari sé ekki með sérþarfir á barnum svarar hann hlæjandi: „Nei, ég reyni að vera ekki með stæla á barnum.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×