Innlent

Reyna að milda áhrif sem mest

Sveinn Arnarsson skrifar
Læknar á Akureyri hafa lagt niður störf í tvo sólarhringa.
Læknar á Akureyri hafa lagt niður störf í tvo sólarhringa. Fréttablaðið/KK
Læknar á Sjúkrahúsinu á Akureyri hófu verkfall á miðnætti og stendur verkfall þeirra yfir til miðnættis annað kvöld. Bjarni Jónasson, forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri, segir stjórnendur stofnunarinnar reyna sem mest að milda þau áhrif sem verkfall lækna kunni að hafa.

„Það er þannig að það eru læknar á öllum vaktlínum og öllum bráðatilvikum verður sinnt. Þjónustan er sett upp þannig að fjöldinn dugi til að halda þeim sem eru hér í innlögn í öruggum höndum. Síðan tökum við á þeim tilvikum sem upp munu koma,“ segir Bjarni.

Um tíu aðgerðum verður frestað á sjúkrahúsinu þessa tvo sólarhringa. Þessi röskun mun hafa nokkur áhrif á sjúklinga en um valkvæðar aðgerðir er að ræða. „Þetta er auðvitað vont þegar verkföll skella á en við munum reyna allt hvað við getum til að minnka óþægindin. Þjónusta daggöngudeilda verður til að mynda nokkuð skert þessa tvo sólarhringa eins og við má búast í svona aðgerðum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×