Lífið

Reykjavíkurdætur leggja land undir fót

Gyða Lóa Ólafsdóttir skrifar
Hér má sjá hluta af hópnum þegar þær komu fram á Iceland Airwaves.
Hér má sjá hluta af hópnum þegar þær komu fram á Iceland Airwaves. Mynd/Aðsend

Við fengum mikla umfjöllun á Iceland Airwaves og mikla athygli frá erlendum gestum og fjölmiðlum og erum búnar að fá fyrirspurnir og tilboð frá hinum ýmsu hátíðum um allan heim,“ segir Steinunn Jónsdóttir, ein Reykjavíkurdætra leyndardómsfull en rapphópurinn vakti heldur betur athygli á tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves í upphafi mánaðarins.

Hópurinn hefur verið áberandi síðan hún gaf út sitt fyrsta lag um jólin 2013 og vöktu eins og áður sagði mikla athygli á Airwaves þar sem fjallað var um þær í erlendum miðlum á borð við The Guardian, I-D Magazine og Rolling Stone.

„Okkur hefur verið tekið misopnum örmum hérna á Íslandi, sem er allt í góðu en það er svo gaman að sjá hvað þessir erlendu fjölmiðlar og gestir voru að skilja þetta og hvað þetta gengur út á þrátt fyrir að öll lögin okkar séu á íslensku.“

Steinunn segir þó að þær geti ekki upplýst sem stendur um nákvæmlega hvaða hátíðir það eru en segir að spennandi tímar séu framundan og þær muni að öllum líkindum verða á farandsfæti í maí og fram í júlí á næsta ári.

Reykjavíkurdætur eru sautján talsins og spiluðu í fyrsta sinn í útlöndum í september síðastliðnum á tónlistarhátíðinni Nordisk Panorama sem fram fór í Malmö. „Við erum náttúrulega sautján þannig við höfðum heyrt að við gætum aldrei spilað í útlöndum af því við erum svo margar þannig við höfðum eiginlega bara aldrei þorað að hugsa um það. Við trúðum þessu varla fyrr en við fengum flugmiðana í hendurnar og núna bara trúir maður að allt geti gerst og þorir að stefna hvert sem er,“ segir Steinunn hlær.

Reykjavíkurdætur halda utan um öll sín mál sjálfar og eru ekki með umboðsmann heldur eru hinar ýmsu nefndir innan hópsins sem tækla og halda utan um það sem þarf að gera. „Við erum svo margar að við skiptum bara niður verkum. Einhverjar sjá um að skipuleggja túra erlendis og tónleika og svo aðrar sem halda utan um plötugerð.“

Útlandaferðir og erlendar tónlistarhátíðir eru ekki það eina sem er á döfinni hjá hópnum sem stefnir einnig á að gefa út sinn fyrsta geisladisk í vor og segir Steinunn hann verða í svipuðum fíling og efnið sem þær hafa sent frá sér hingað til og blandað verið saman gömlu og nýju smellum sveita.

„Við erum einmitt að fara í sumarbústað yfir helgina og vinna í því að gera eitthvað nýtt saman. Við höfum svolítið verið að vinna hver í sínu horni eða tvær og tvær saman og núna ætlum við að sjá hvað gerist þegar við komum allar saman,“ segir hún og bætir við að þeir sem hafi áhuga geti fylgst með þeim á Snapchat undir notendanafninu Rvkdaetur.

Fram til þessa hafa Reykjavíkurdætur sammælst um þema, tímaramma og viðlag við gerð lagana og svo hist áður en þær fara í stúdíóið og segir Steinunn það verða gaman að sjá hvað gerist þegar þær koma allar saman og virkja sköpunarkraftinn. „Það er dálítið spennandi af því það eru kannski sumar sem hafa verið að vinna mikið saman og aðrar unnið minna saman þannig það er gaman að mixa því öllu upp og sjá hvað kemur út úr því,“ segir hún hress að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×