Innlent

Reykjavík styrkir danskeppni

Þorgeir Helgason skrifar
Street dans einvígið er á vegum dansskóla Brynju Péturs.
Street dans einvígið er á vegum dansskóla Brynju Péturs. Mynd/Brynja Péturs
Borgarráð Reykjavíkur ákvað í gær að styrkja Street-danseinvígi ársins 2017 um 200 þúsund krónur. Borgin hafnaði á sama tíma að veita Aflinu á Akureyri styrk. Dansskóli Brynju Péturs skipuleggur viðburðinn og verður þetta í fimmta sinn sem keppnin fer fram.



Í ár fór keppnin fram í Spennustöðinni og tóku 30 dansarar þátt. Auk einvígisins voru vinnustofur haldnar með velþekktum gestakennurum úr danssenunni. Til að mynda sóttu Danielle Polcano, sem hefur unnið sem danshöfundur fyrir Beyoncé, og Kapela, einn sigursælasti götudansari í Evrópu, viðburðinn í ár.

Aflið er samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi sem hafa starfað síðan árið 2002. Á fyrstu tíu mánuðum ársins veitti Aflið 122 skjólstæðingum 1.217 viðtöl. Samtökin telja að núverandi framlög nægi ekki til að þau geti veitt eðlilega þjónustu í málaflokknum. Því leituðu samtökin á náðir Reykjavíkurborgar en borgin hafnaði því að veita þeim styrk.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×