Lífið

Raunveruleikaþáttur í anda Contraband

Mark Wahlberg heillaðist af hafnarlífinu eftir leikinn í Contraband.
Mark Wahlberg heillaðist af hafnarlífinu eftir leikinn í Contraband.
Leikarinn Mark Wahlberg er að undirbúa raunveruleikaþáttaröð sem byggir á kvikmyndinni Contraband sem hann leikur í undir leikstjórn Baltasars Kormáks.

Þáttaröðin á að heita Port of L.A. og fjallar um smyglið sem á sér stað við höfnina í Los Angeles. Kvikmyndin Contraband, sem er byggð á hinni íslensku Reykjavík Rotterdam, fjallar einmitt um hafnarsmygl. „Þetta verður raunveruleikaþáttur, í dramatískum heimildarmyndarstíl," sagði Wahlberg í viðtali við WENN.

„Við höfum eytt miklum tíma þarna og við vitum um allar hætturnar sem eru þarna, eins og þær sem tengjast smygli og mansali. Eitt sinn þurfti að loka höfninni í Los Angeles í eina viku og það kostaði þjóðina um 305 milljarða króna á dag. Um leið og þetta stöðvast þarna þá gerist ekki neitt. Ekkert kemur inn og ekkert fer út."

Wahlberg framleiddi síðast sjónvarpsþáttaröðina vinsælu Entourage sem rann sitt skeið á enda í september. Eftir að hafa leikið í Contraband fékk hann mikinn áhuga á höfninni í Los Angeles og vonast til að hefja framleiðslu á þáttunum á næstunni. „Það eru ljótir hlutir sem gerast þarna og þetta er heillandi heimur. Mér fannst söguþráðurinn í Contraband áhugaverður og það væri hægt að gera meira með þetta umfjöllunarefni ef gert yrði á réttan hátt," sagði Wahlberg.

Contraband verður frumsýnd í Bandaríkjunum 13. janúar og hér á landi 20. janúar. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×