Innlent

Ragnar Guðmundsson á Brjánslæk látinn

Ragnar á Brjánslæk í viðtali í sumar fyrir þáttinn "Um land allt". Myndin var tekin við Flókatóftir.
Ragnar á Brjánslæk í viðtali í sumar fyrir þáttinn "Um land allt". Myndin var tekin við Flókatóftir. Stöð 2/Baldur Hrafnkell.
Ragnar Guðmundsson, fyrrverandi bóndi og hafnarvörður á Brjánslæk, er látinn, 79 ára að aldri. Hann lést á jólanótt vegna hjartaáfalls á Heilbrigðisstofnun Patreksfjarðar en þangað var hann fluttur frá heimili sínu á aðfangadagskvöld eftir að hann kenndi sér meins.

Vesturbyggð heiðraði Ragnar fyrir farsæl störf í þágu sveitarfélagsins fyrir tveimur árum þegar hann lét af starfi hafnarvarðar á Brjánslæk. Því starfi hafði hann þá gegnt í 63 ár eða frá árinu 1949.

Á Brjánslæk, landmestu jörð Vestfjarða, rak Ragnar eitt af stærri sauðfjárbúum landsins, en hann var jafnframt í forystusveit samtaka bænda í héraðinu og á landsvísu. Þá var hann í hópi þeirra sem stóðu að hvalveiðum og hvalvinnslu frá Brjánslæk og einnig skelveiðum og rækjuveiðum.

Fyrir tveimur mánuðum var sýndur þáttur á Stöð 2 frá Brjánslæk þar sem Ragnar var helsti viðmælandi. Þar minnti hann á þýðingu Brjánslækjar og Vatnsfjarðar fyrir sögu þjóðarinnar vegna Hrafna-Flóka, sem nefndi landið Ísland, eftir að hafa gengið þar á fjall og séð hafís. „Þessvegna erum við Íslendingar“ sagði Ragnar. Hér má sjá þáttinn: „Á Brjánslæk urðum við að Íslendingum.“ 

Ragnar Guðmundsson lætur eftir sig eiginkonu, fimm börn og barnabörn. Útför Ragnars verður gerð frá Brjánslækjarkirkju þann 10. janúar. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×