Innlent

Rætt um tölvuvarnir: „Tugir kvenna leitað til Kvennaathvarfsins heima á Íslandi“

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Tölvuglæpir og sérstök fjargægisforrit voru til umræðu í Morgunþættinum á FM957. Ósk Gunnars og Rikki G, sem leysti Sverri Bergmann af, slógu þá á þráðinn til Ýmis Vigfússonar, tölvunarfræðings við Emory háskóla í Atlanta.

„Það eru til hugbúnaðir sem fólk getur notað til að fylgjast með einhverjum öðrum úr fjarska,“ segir Ýmir. „Það hefur verið mikil gróska í slíkum búnaði að undanförnu. Mörg pör sem treysta ekki hvort öðru setja svona upp í tölvunni hjá hinum aðilanum.“

Forritin gera þér meðal annars kleyft að skoða vefmyndavélina án vitundar hins, hlustað á míkrafóninn, séð öll skeyti og það sem fer fram á skjánum og tekið myndir án þess að aðilinn viti af því. Forritin eru til bæði fyrir síma og tölvur

„Það eru tugir dæma um að konur hafi leitað í Kvennaathvarfið heima á Íslandi undanfarin tvö ár eftir að hafa orðið fyrir barðinu á svona búnaði.“

Glæpasamtök hafa einnig notað búnaðinn að undanförnu til að komast yfir kreditkortanúmer eða viðkvæmar upplýsingar. Stærsti hópurinn sem notar þau er hins vegar gerendur heimilisofbeldis.

„Helsta vörnin gegn þessu er að opna ekkert sem þú veist ekki hvað er og að uppfæra forrit reglulega. Uppfærslurnar þýða að veikleiki hefur fundist og verið er að eyða þeim. Einnig er ágætt ráð að meðan þú ert ekki að nota vefmyndavélina þá er hægt að líma límband yfir hana,“ segir Ýmir.

Spjallið í heild sinni má heyra hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×