Innlent

Ráðherra styrkir Með okkar augum

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Stjórnendur þáttanna Með okkar augum.
Stjórnendur þáttanna Með okkar augum.
Eygló Harðardóttir, félags – og húsnæðismálaráðherra, og Friðrik Sigurðsson, framkvæmdarstjóri Landssamtakanna Þroskahjálpar , undirrituðu í dag samning um styrkveitingu, að upphæð 2 milljónir króna til framleiðslu á nýrri þáttaröð sjónvarpsþáttanna ,,Með okkar augum“ þar sem fólk með þroskahömlun er í lykilhlutverki.

„Það munar vissulega um þennan styrk,“ segir Friðrik sem telur þetta auka líkurnar á að hægt sé að gera fleiri þætti.  Hann segir að greiðslur RÚV til Landsamtaka Þroskahjálpar fyrir gerð þáttanna dugi ekki til framleiðslukostnaðar, ekki nema að hluta.  „Þetta eru mikilvægir þættir sem hafa þann tilgang að breyta neikvæðri ímynd fötlunar og þeir sýna að fólk með þroskahömlun getur búið til ágætis sjónvarpsefni,“ bætir Friðrik við.

Eygló Harðardóttir segist fagna samstarfinu við Landssamtökin Þroskahjálp og vonar að haldið verði áfram á þeirri góðu braut sem mörkuð hefur verið á undanförnum árum með gerð þáttanna og sýningu þeirra á RÚV . ,,Vinsældir þáttanna eru einnig hvatning til annarra fjölmiðla um að þeir láti ekki sitt eftir liggja við að auka sýnileika og virkni fatlaðs fólks í íslensku samfélagi,“ segir Eygló.

Ætlunin er að sex þættir verði framleiddir og þeir sýndir á RÚV á komandi sumri. Þættirnir hafa á undanförnum árum vakið mikla athygli og  hlotið margvíslegar viðurkenningar, m.a. Samfélagsverðlaun Fréttablaðsins gegn fordómum, hvatningarverðlaun Öryrkjabandalags Íslands og hvatningarverðlaunin Kyndilinn sem réttindavakt velferðarráðuneytissins veitti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×