Íslenski boltinn

Præst farinn frá Stjörnunni

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Præst í myndatöku fyrir leikina gegn Celtic í sumar.
Præst í myndatöku fyrir leikina gegn Celtic í sumar. Vísir/Tom
Stjarnan og Michael Præst komust í dag að samkomulagi um að danski miðjumaðurinn muni ekki leika með Stjörnunni á næstkomandi keppnistímabili.

Samningur Præst við Stjörnuna rennur út um áramótin en aðilar komust að því að samningurinn verði ekki framlengdur og skilja því leiðir að sinni.

Præst hefur leikið með Stjörnunni síðastliðin 3 keppnistímabil eða allt frá því að hann kom til Íslands sumarið 2012 frá FC Fyn sem lék í dönsku fyrstu deildinni.

Præst lék alls 46 leiki fyrir Stjörnuna í Pepsi-deildinni og skoraði í þeim eitt mark en hann lék 12 leiki á síðasta tímabili þegar Stjarnan varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn.

Var hann frá vegna meiðsla seinni hluta tímabilsins eftir að hafa slitið krossband í leik gegn Lech Poznan.

„Ég vil nýta tækifærið og þakka aðdáendum, liðsfélögum, þjálfurum og öllum þeim sem standa að liðinu fyrir allan þann stuðning sem ég og fjölskylda mín höfum notið þessi ár hjá Stjörnunni. Ég átti frábæran tíma hjá Stjörnunni enda hef ég verið hluti af mögnuðum hópi Stjörnumanna sem skapað hefur minningar sem mér mun þykja vænt um fyrir lífstíð.  Ákvörðunin að setja punkt á þennan hluta ferilsins hefur verið mér mjög erfið en stundum til þess að þróast frekar sem leikmaður þarf að taka erfiðar ákvarðanir sem leiða af sér nýjar áskoranir. Ákvarðanirnar um að koma til Stjörnunnar á sínum tíma og að framlengja samninginn minn við félagið þá hafa báðar reynst þær bestu á mínum ferli og ég vona að ég sé aftur að gera rétt. Takk Fyrir mig,“ sagði Præst í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×