Innlent

Pawel í framboð fyrir Viðreisn

Birta Svavarsdóttir skrifar
Pawel Bartoszek, stærðfræðingur.
Pawel Bartoszek, stærðfræðingur. 365/Þorbjörn Þórðarson
Pawel Bartoszek, stærðfræðingur og fyrrum fulltrúi í Stjórnlagaráði, hefur sagt skilið við Sjálfstæðisflokkinn og gengið til liðs við Viðreisn. Þetta kemur fram í uppfærslu hjá Pawel á Facebook í dag.

Í uppfærslu sinni segist Pawel trúa á þrennt; borgaraleg réttindi, frjálsan markað og alþjóðlega samvinnu. Segir hann þann stjórnmálaflokk sem hann eigi mesta hugmyndafræðilega samleið með vera Viðreisn.

Í samtali við Vísi segir Pawel, „Ég hef verið að hugsa þetta í langan tíma. Ef ég væri að skrá mig í stjórnmálaflokk í dag, hvaða flokkur myndi það vera? Viðreisn er sá flokkur sem ég á mesta hugmyndafræðilega samleið með. Þess vegna fannst mér kominn tími til að stíga skref þar inn.“

Pawel hefur hingað til verið virkur í starfsemi Sjálfstæðisflokksins, en hann var í framboði fyrir flokkinn í Reykjavík árið 2010.

Pawel segist hafa áhuga á að fara í framboð fyrir Viðreisn í Reykjavík, og segir það að segja sig úr Sjálfstæðisflokknum vera jákvæða ákvörðun.

„Ég sendi inn tilkynningu áðan að ég væri genginn úr flokknum. Þetta er jákvæð ákvörðun en ekki neikvæð. Mér leið ekkert illa í Sjálfstæðisflokknum, maður verður bara að fylgja hugsjónum sínum og finna starf sem maður á hugmyndafræðilega samleið með,“ segir Pawel að lokum.

Sjá má stöðuuppfærslu Pawels hér fyrir neðan




Fleiri fréttir

Sjá meira


×