Innlent

Pauline segist ekki okra á túristanamminu

Jakob Bjarnar skrifar
Hátt verð á namminu í lundabúðunum á sér eðlilegar skýringar, segir Pauline.
Hátt verð á namminu í lundabúðunum á sér eðlilegar skýringar, segir Pauline.
„Ég kem út eins og gráðug manneskja sem er að nærast á saklausum túristum. En í raun er ekki nema hálf sagan sögð,“ segir Pauline McCarthy.

Pauline er eigandi fyrirtækisins Ísland Trea­sures ehf sem selur lundabúðum og ferðamannastöðum sælgæti. Vefsíðan Must See in Iceland fjallaði um okur á þessari vöru, en þar kemur meðal annars fram að poki af möndlum, sem fæst á 215 krónur í Bónus kostar 900 krónur, sama vara og sama magn, sem „Lava Spraks“ í ferðamannabúðum. Um er að ræða 360 prósenta mun á verði.

100 krónu hagnaður á poka

Pauline segir þetta að verulegu leyti á miklum misskilningi byggt og henni finnst umfjöllunin ósanngjörn. Hún hafi ekki fengið færi á að svara fyrir sig.

Hún útskýrir fyrir blaðamanni Vísis að hagnaður af hverjum poka um sig sé aðeins 100 krónur. Í þau fimm ár sem hún hefur rekið sitt litla fyrirtæki á Akranesi, þá hafi það ekki enn skilað hagnaði.

„Ég skil vel að fólk sem er að kaupa sælgæti eitt og útaf fyrir sig finnist þetta sláandi munur. En, ég er að selja minjagripi ekki síður en sælgæti. Bónus kaupir vöruna frá framleiðanda í tonnavís. Ég fæ ekki þessa vöru á sömu kjörum,“ útskýrir Pauline. Hún segir að álagning sín sé sú sama og tíðkast í kjörbúðum, þegar allt er reiknað.

Kostnaður fylgir pökkun og dreifingu

Hún segir að kostnaður fylgi pökkun og hún hafi fengið unga listamenn til að hanna umbúðirnar. Pauline segir af könnun sem gerð var meðal ferðamanna, hvorn pokann þeir vildu heldur, sinn eða þann sem fæst í Bónus og 95 hafi svarað að þeir vildu heldur pokana frá Island Treasures.

Pauline fékk hugmyndina að stofnun fyrirtækisins fyrir nokkru þegar hún sá sælgæti frá Nýja-Sjálandi, kiwi-súkkulaðiegg. Og sá ekki síður tækifæri á slíkri markaðssetningu hér á Íslandi. „Ég skil vel að fólk sem ekki skilur hugmyndina eða „conseptið“ finnist þetta mikið.“

En, ef að er gáð er ekki um okur að ræða, að sögn Pauline. Hún er búsett á Akranesi, er af írskum ættum en hefur búið hér í 24 ár. Þeir sem fylgust með Ísland got talend muna ef til vill eftir henni en hún fór á kostum þegar hún flutti lag sem Shirley Bassey gerði frægt: Hey big spender.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×