Innlent

Páskagóðverk: Keypti páskaegg fyrir rúmar 100 þúsund krónur

Hrund Þórsdóttir skrifar
Áætlað er að Íslendingar muni borða um tvær milljónir páskaeggja í ár. Fæstir kaupa þó líklega eins mörg páskaegg og Helga Þ. Ingadóttir, en fyrir því er góð og gild ástæða.

Sumir ráku upp stór augu í dag þegar Helga raðaði í verslunarkerruna sína, en hún gerði sér lítið fyrir og keypti hátt í hundrað páskaegg í einni ferð. Hún var á leið með eggin í Fjölskylduhjálp Íslands og Hjálparstarf kirkjunnar. Eins og sjá má í meðfylgjandi myndskeiði tóku sjálfboðaliðar Fjölskylduhjálpar Íslands glaðir við framlagi Helgu. Hún hóf átakið Gleðjum um páskana árið 2012.

„Ég fór að safna eggjum fyrir börn á Íslandi sem búa við þær aðstæður að ekki er hægt að kaupa páskaegg á heimilum þeirra,“ segir Helga.

Þetta byrjaði smátt er það ekki?

„Jú, þetta byrjaði með fimm eggjum, páskana þar á eftir keypti ég egg fyrir 90 þúsund krónur og núna var ég að kaupa egg fyrir 101 þúsund krónur. Í ár söfnuðust að auki 75 egg á Akureyri,“ segir Helga.

En af hverju að gefa páskaegg?

„Af því að páskarnir eru hátíð rétt eins og jólin og það eiga allir rétt á góðum æskuminningum. Þetta snýst ekki um súkkulaði og nammiát, heldur að geta átt góða páska.“

Margir lögðu hönd á plóg og Helga þakkar þeim kærlega fyrir þátttökuna. „Og fyrir að treysta mér fyrir að sjá um þetta,“ segir hún. „Gleðilega páska!“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×