Innlent

Óvíst um áhrif banns á endurskoðun vaxta

Ingvar Haraldsson skrifar
Sigurður Erlingsson, framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs.
Sigurður Erlingsson, framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs.
Fulltrúar Landsbankans og Arion banka segja óljóst hvaða áhrif úrskurður Neytendastofu gegn Íslandsbanka muni hafa á bankana. Neytendastofa bannaði Íslandsbanka að breyta ákvæði um endurskoðun vaxta vegna fasteignaláns sem tekið var árið 2005.

Fara þurfi yfir hvort bankarnir hafi veitt lán með sambærilegum ákvæðum og um hve stóran hluta lánasafnsins sé að ræða en málið sé enn til skoðunar.

Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi Landsbankans, segir þó að Landsbankinn hafi veitt lán með sambærilegum ákvæðum og Íslandsbanki. „Íslandsbanki gæti áfrýjað úrskurðinum til áfrýjunarnefndar neytendamála og farið með þetta fyrir dómstóla ef því er að skipta. Fyrr en það er orðið ljóst veit maður ekki hvaða áhrif þetta mun hafa,“ segir Kristján.

Í málsvörn sinni vísaði Íslandsbanki til þess að sambærileg endurskoðunarákvæði tíðkuðust hjá Íbúðalánasjóði. Aðspurður kannaðist Sigurður Erlingsson, framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs, ekki við slíkt ákvæði í lánaskilmálum bankans en vildi ekki útiloka að hægt væri að finna einhver dæmi um slíkt. Úrskurður Neytendastofu muni hins vegar hafa óveruleg áhrif á Íbúðalánasjóð að sögn Sigurðar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×