Innlent

Óvissa með áframhald gangagerðar

sveinn arnarsson skrifar
Mikið hefur verið lagt í búnað Eyjafjarðarmegin til að lækka hitastig í göngunum. Nú er svo komið að gangagerðin hefur verið stöðvuð um óákveðinn tíma.
Mikið hefur verið lagt í búnað Eyjafjarðarmegin til að lækka hitastig í göngunum. Nú er svo komið að gangagerðin hefur verið stöðvuð um óákveðinn tíma. fréttablaðið/Auðunn
Vaðlaheiðargöngin að austanverðu eru orðin full af vatni og þrýstast nú inn í göngin um það bil 500 lítrar af köldu vatni á sekúndu. Stafn ganganna, sem er um 1,5 km inni í fjallinu, liggur um fimmtán metra fyrir neðan gangamunnann og fylltust þau á um sólarhring. „Við áætlum að þarna inni séu um fjörutíu þúsund tonn af vatni,“ segir Valgeir Bergmann, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga hf. Jarðgangagerðin sjálf hefur því stöðvast um óákveðinn tíma á meðan fundin er lausn á vatnsflaumnum.

Síðastliðinn föstudag sáu verkamenn hvar byrjað var að hrynja úr miðgengissprungu í lofti ganganna. Vatnssöfnunin var einnig mikil þrátt fyrir kröftugar dælur sem höfðu ekki undan. „Þegar verktaki sá að ekki tókst með góðu móti að koma vatninu út voru fengnar fleiri og öflugri dælur. Þær dælur höfðu hins vegar ekki undan magninu og því var það eina í stöðunni að ná verðmætum út úr göngunum og bíða átekta,“ segir Valgeir.

Valgeir Bergmann
„Það er alveg ljóst að það verður ekki grafið í nokkurn tíma. Við vitum ekkert hversu lengi gangagerðin stöðvast,“ segir Valgeir. „Nú erum við bara að skoða næstu skref og hvað við getum gert úr stöðunni. Við vitum að rennslið inn í göngin mun minnka. Hins vegar vitum við ekki hversu langan tíma það mun taka að ná jafnvægi. Nú vinnum við að því að finna út hversu öflugar dælur við þurfum til að dæla út vatninu. Einnig þurfum við öflugar lagnir því stafninn er 1.500 metra inni í fjallinu og við þurfum að ræsa vatn út alla þessa leið,“ segir Valgeir.

Gangagerðin í Vaðlaheiði hefur ekki gengið greiðlega fyrir sig. Eftir nokkurn gröft Eyjafjarðarmegin lentu verktakar á mjög heitu vatni sem hefur stöðvað gangagerð þeim megin vegna hita. Nú eru göngin austanmegin orðin full af vatni og því verður enn meiri seinkun á verkinu. Valgeir segir kostnað við verkið þó ekki vera kominn langt fram úr áætlun sökum þessara erfiðleika.

„Í upphaflegri áætlun var gert ráð fyrir einhverjum ófyrirséðum kostnaði. Sá liður er ekki búinn en það stefnir auðvitað í að hann verði nokkuð hærri en spár gerðu ráð fyrir. Á móti kemur að verktakinn er aðeins með eitt borgengi í vinnu en átti að vera með tvö samkvæmt plani. Þótt verkið tefjist um einhvern tíma við þetta þarf það ekki að hafa í för með sér aukinn kostnað,“ segir Valgeir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×