Innlent

Óveðrið nær hámarki í kvöld

Anton Egilsson skrifar
Það fer að hvessa enn meira á höfuðborgarsvæðinu í kvöld.
Það fer að hvessa enn meira á höfuðborgarsvæðinu í kvöld. Vísir/Vilhelm
Samkvæmt veðurfræðingi á Veðurstofu Íslands nær óveðrið hámarki í kvöld. Búist er við enn hvassara veðri á höfuðborgarsvæðinu þegar líða tekur á kvöldið. Klukkan átta í kvöld var suðaustan átt, 10 til 15 metrar á sekúndu, en þétt byggð og hár gróður hlífir höfuðborginni meðan vindurinn blæs í suðaustan átt. Vindurinn verður suðlægari seinna í kvöld og þá kemur vindurinn til með að ná sér betur á strik.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hvetur því fólk og fyrirtæki að huga að lausamunum og tryggja byggingasvæði og báta.

Hvassast verður að öllum líkindum á norðanverðu Snæfellsnesi en klukkan átta í kvöld var vindhraði í kringum 20 metrar á sekúndu. Kemur vindur til með að aukast seinna í kvöld og getur náð upp í allt að 28 metra á sekúndu. Reiknað er með að það muni fara að draga úr vindi laust eftir miðnætti.

Horfur næsta sólarhring

Suðaustan 18-28 m/s á sunnan- og vestanverðu landinu og víða snarpar vindvhiður við fjöll. Vaxandi sunnanátt norðantil, 18-25 m/s þar í kvöld. Talsverð rigning, en mun hægari vindur og þurrt austanlands. Sunnan 20-30 m/s í nótt, hvassast til fjalla en sunnan 15-20 á Austurlandi. Dregur úr vindi vestantil seint í nótt en austantil í fyrramálið. Áfram rigning með köflum eða skúrir á morgun en skýjað með köflum norðaustan- og austanlands. Hiti 6 til 13 stig, hlýjast á Norðurlandi.

Efra kortið sýnir bæði rigningu og vind en neðra kortið sýnir einungis vind.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×