Innlent

Össur vitnaði í Tinu Turner á ríkjaráðstefnu ESB

Utanríkisráðherra greip til heimspeki Tinu Turner þegar hann flutti mál Íslands á ríkjaráðstefnu Evrópusambandsins á mánudag. Hann vonast til að hægt verði að setja aðildarsamning í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir lok kjörtímabilsins.

Aðildarviðræður Íslands við Evrópusambandsins fer fram í 35 köflum. Þeir eru misþungir, en Íslendingar hafa meira og minna innleitt tuttugu og þrjá þeirra með aðildinni að Evrópska efnahagssvæðinu, EES. Utanríkisráðherra vill að viðræður um helming kaflanna hefjist á næstu sex mánuðum undir forsæti Pólverja hjá sambandinu og um þá kafla sem eftir standa í forsætistíð Dana sem hefst um áramótin næstu.

Ertu að gera þér vonir um það að sú ríkisstjórn sem nú situr geti sent þetta mál í þjóðaratkvæðagreiðslu áður en kjörtímabilinu lýkur?

„Þessi ríkisstjórn mun náttúrulega sitja svo lengi þannig að ég geri fastlega ráð fyrir því að það verði undir sem þjóðaratkvæðagreiðslan verður. En ég þori ekkert að segja um það hvenær hún fer fram en ég vildi að hún yrði fyrir kosningar. Og það er þess vegna sem ég hef verið að leggja áherslu á það við ESB á þessum fundi að við hröðum ferlinu,“ segir Össur.

Og að sem fyrst verði byrjað að ræða erfiðistu kaflana um landbúnaðar- og sjávarútvegsmál.

„Því að hraðinn og lokapunkturinn mun helgast af niðurstöðum þar, í þeim tveimur.“

Það spurðist út af ríkjaráðstefnunni í Brussel á mánudag að utanríkisráðherra hefði leitað í smiðju sönggyðjunnar Tinu Turner í málflutningi sínum.

„Já, ég var að segja að þeir hegðu margoft komið í heimsókn til Íslands og þeir hefðu séð hið íslenska líf og það væri „nice - not always easy“ sagði ég.  Svo vísaði ég til þess að frá því þeir komu fyrst hafi orðið þrjú eldgos þannig það mætti kannski lýsa hinu íslenska lífi með orðum Tinu Turner; Nice and rough,“ segir Össur að lokum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×