Innlent

Öskumökkur í Evrópu nær alltaf íslenskur

Svavar Hávarðsson skrifar
14. apríl hófst sprengigos í toppöskju Eyjafjallajökuls. Öskufall varð verulegt og náði allt til meginlands Evrópu. Farþegaflug lagðist þar niður að mestu í fimm sólarhringa og meira en 100.000 áætlunarferðum var aflýst. Gosið stóð í 39 daga.
14. apríl hófst sprengigos í toppöskju Eyjafjallajökuls. Öskufall varð verulegt og náði allt til meginlands Evrópu. Farþegaflug lagðist þar niður að mestu í fimm sólarhringa og meira en 100.000 áætlunarferðum var aflýst. Gosið stóð í 39 daga. vísir/pjetur
Tíðar má vænta öskuskýja frá eldsumbrotum yfir Norður-Evrópu, jafnvel með tilheyrandi truflun á flugumferð, en áður var talið. Ný rannsókn, byggð á rannsóknum á allt að sjö þúsund ára gömlum ummerkjum eldgosa, sýnir að slíkra atburða megi vænta á 44 ára fresti að meðaltali. Rannsóknin sýnir jafnframt að sökudólgurinn fyrir slíkum eiturspýjum yfir norðurhluta álfunnar er jafnan Ísland – með fáeinum undantekningum í sögunni.

Það er teymi vísindamanna við háskólann í Leeds sem hefur birt niðurstöður sínar í virtu tímariti. Þrátt fyrir að vísindamennirnir hafi rannsakað öskulög eldgosa svo gamalla sem sjö þúsund ára, eru helstu niðurstöður þeirra dregnar af ummerkjum sem eru þúsund ára og yngri. Ástæða rannsóknarinnar er þá aftur eldgosið í Eyjafjallajökli og þau miklu áhrif sem það hafði á flugumferð í Evrópu.

Niðurstöður þeirra hvað uppruna öskunnar, eða gjóskunnar, varðar eru afdráttarlausar. Öskulögin voru það greinileg í mörgum tilfellum að auðvelt reyndist að máta þau við söguleg gögn. Alls fundust greinileg merki um 84 skipti þar sem öskuský breiddust yfir Norður-Evrópu – reyndust þau nær undantekningarlaust vera frá Íslandi en eldgos í Alaska og Rússlandi komu einnig við sögu. Þegar aðeins nýrri gögn voru rýnd eru töluverðar líkur á því að slíkra aðstæðna sé að vænta á hverjum áratug.

Þessi gögn eru fyrst og síðast talin gagnast fyrirtækjum í flugrekstri og hjálpi til við áætlanagerð og fjárfestingar. Eins gagnast þau tryggingafélögum og almenningi.

Gagnabankinn sem þegar var fyrir hendi var nokkuð yfirgripsmikill, en vísindamennirnir vildu kanna hversu margar eyður væri að finna og hvort ekki mætti fá fyllri mynd af þessum atburðum. Því var ferðast til nokkurra landa, þeirra á meðal Englands, Wales, Svíþjóðar og Póllands – þar sem borkjarna var aflað, bæði á landi og ekki síður var borað niður um botn stöðuvatna. Alls staðar sem bor bar niður fundust ummerki þessara eldsumbrota sem senda mökk sinn svo hátt í lofthjúpinn að hann berst með vindum svo víða sem raun ber vitni.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×