Lífið

Óskarsframleiðandi sækir Íslendinga heim

REYNSLUBOLTI Christine Vachon hefur margra ára reynslu í kvikmyndaframleiðslu.
REYNSLUBOLTI Christine Vachon hefur margra ára reynslu í kvikmyndaframleiðslu.
Kvikmyndaframleiðandinn Christine Vachon heldur fyrirlesturinn Úr öskustónni á Óskarinn í Bíó Paradís í dag. Þar ætlar hún að ræða við gesti um reynslu sína af því að framleiða óháðar kvikmyndir og hvernig fjármagna megi myndirnar án aðstoðar styrkja frá ríkinu eða kvikmyndarisum, en hún fagnar tuttugu ára starfsafmæli sínu í ár. „Ég ætla að ræða um stöðu óháðrar kvikmyndagerðar og hvernig megi viðhalda ferlinum. Svo leyfi ég þessu svolítið að ráðast, en mér finnst best ef ég get náð einhverri umræðu milli mín og áhorfenda,“ segir Vachon. Myndir sem hún hefur framleitt hafa sópað til sín verðlaunum, nú síðast myndin Still Alice með Julianne Moore í aðalhlutverki sem fékk Óskarinn fyrir leik sinn. Hún segir mikilvægast að kvikmyndagerðarmenn og framleiðendur finni rétta miðilinn til þess að koma sögu sinni á framfæri. „Það er mikilvægt að þeir hugsi um sig sem sögumenn en ekki kvikmyndagerðarmenn og finni þannig besta miðilinn til þess að segja söguna sem þeir eru með, því það er svo auðvelt fyrir þá að festast í sama farinu. Það er svo margt í boði; sjónvarpsseríur, netþættir, bíómyndir og fleira og það þarf að nýta það,“ segir hún. Vachon segir margt hafa breyst síðan hún framleiddi fyrstu myndina sína, Poison, fyrir tuttugu árum. „Það helsta er auðvitað að það er ekki tekið upp á filmu lengur og svo auðvitað allir þessir mismunandi miðlar sem í boði eru,“ bætir hún við. Fyrirlesturinn er öllum opinn og hefst klukkan 15.00 í Bíó Paradís. adda@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×