Innlent

Önnur hver króna fer í laun

Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar
Halldór Halldórsson
Halldór Halldórsson
Um 50 prósent tekna stærstu sveitarfélaganna fara í launagreiðslur og lítið borð er fyrir báru þegar kemur að því að auka við þjónustu. Hlutfallið er enn hærra hjá sumum minnstu sveitarfélögunum. Skuldastaða þeirra hefur batnað á síðustu árum en er enn slæm hjá mörgum þeirra.

Þetta kemur fram í ársreikningum fyrir árið 2014. Innanríkisráðuneytið gefur út heildaryfirlit yfir stöðu sveitarfélaganna árlega, en þar sem niðurstaða ársins 2014 er ekki komin settist Fréttblaðið yfir ársreikninga stærstu sveitarfélaganna og skoðaði stöðuna. Ársreikningur sveitarfélagsins Árborgar liggur ekki fyrir.

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir stöðuna sýna það sem sveitarfélögin hafi lengi sagt, að það þurfi að breikka tekjustofna þeirra. Hann segir að fjármálaráðherra hafi gefið ádrátt um að ræða það í nýlegri yfirlýsingu tengdri kjarasamningum.

„Við mundum vilja fá hlutdeild í virðisaukaskatti og umferðarsköttum,“ segir Halldór, sem segir löngu kominn tíma á að skoða þessi mál.

„Í viðræðum við fjármálaráðherra í tengslum við yfirlýsingar vegna kjarasamninga fannst mér hann opinn fyrir því að taka umræðuna.“

Í hópi tólf stærstu sveitarfélaganna er launakostnaður hlutfallslega hæstur hjá Akureyri, þar sem hann er 58,55 prósent rekstrartekna, og Fjarðabyggð, þar sem hann er 58,52 prósent tekna. Launakostnaður í Reykjavík nemur 53,56 prósentum tekna og í Kópavogi 53,43 prósentum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×