Innlent

Ómetanlegt að geta leitað í gott húsaskjól

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Frá Patreksfirði í gær.
Frá Patreksfirði í gær. vísir/Helga Gísladóttir
Á fimmta tug íbúa á Patreksfirði var í gær gert að yfirgefa heimili sín eftir að hættustigi vegna krapaflóðahættu var lýst yfir. Um fjörutíu manns leituðu skjóls á Fosshóteli bæjarins, að sögn Helgu Gísladóttur, formanns Barðastrandasýsludeildar Rauða krossins.

„Við vorum bara kölluð út í fjöldahjálparstöð um klukkan átta í gærkvöldi og fórum þrír sjálfboðaliðar frá Rauða krossinum á Fosshótel á Patreksfirði sem hefur verið notað sem slíkt. Við tókum á móti fólki í gærkvöldi og það komu fjörutíu manns sem voru skráðir, frá rúmlega eins árs og upp úr. Það fóru níu manns annað, til ættingja og vina,“ segir Helga.

Hún segir að vel hafi farið um alla. „Ég kom við í morgun um átta leytið og þá var fólk farið til vinnu og krakkarnir í skólann og létu bara vel af sér. Það er ómetanlegt að geta vísað fólki í svona gott húsaskjól þegar það þarf að yfirgefa heimili sín.“

Helga segir að þrátt fyrir að það hafi vissulega verið hvasst hafi Patreksfirðingar upplifað mun verra veður. „Miklu verra. Við bjuggumst við mjög slæmu veðri og fólk var farið að festa niður hluti og dót. En í þessari átt sem var í gær þá verður ekki svo slæmt hérna virðist vera.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×