Íslenski boltinn

Ólafur: Leggjum meiri áherslu á okkur en andstæðinginn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ólafur var kátur í leikslok.
Ólafur var kátur í leikslok. vísir/stefán
Það var létt yfir Ólafi Jóhannessyni, þjálfara Vals, eftir stórsigur hans manna á Þrótti í kvöld.

„Við spiluðum fínan leik hérna í dag og ég er ánægður með mína menn,“ sagði Ólafur í leikslok.

Fyrri hálfleikurinn var nokkuð jafn en í þeim seinni voru Valsmenn mun sterkari aðilinn og kláruðu leikinn af öryggi.

„Mér fannst við hafa góð tök á leiknum en í hálfleik töluðum við um að bæta okkur aðeins og þá myndum við fá fleiri opnanir. Og það gekk eftir,“ sagði Ólafur sem brýndi fyrir sínum mönnum að halda einbeitingu í leiknum.

„Okkar leikur snýst alltaf um okkur. Við leggjum meiri áherslu á okkur en andstæðinginn. Þegar menn spila við lið í neðri hlutanum er hætt við að þeir gleymi sér og tapi einbeitingunni en það gerðist ekki í dag.“

Valsmenn eru þegar búnir að tryggja sér Evrópusæti með sigrinum í Borgunarbikarnum og hafa þannig séð að litlu að keppa í síðustu umferðum Pepsi-deildarinnar. Ólafur vill þó sjá sína menn klára mótið af krafti.

„Við förum í hvern leik til þess að vinna hann og þannig verður það,“ sagði Ólafur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×