Innlent

Öðruvísi þróun en fyrir hrun

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
„Fasteignaverð í sumar, sérstaklega síðustu tvo mánuði, hefur hækkað sérstaklega mikið,“ segir Ari Skúlason, hagfræðingur hjá hagfræðideild Landsbankans.

Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað mikið á síðustu mánuðum eða um 2,2% bæði í júní og júlí. Hækkun undanfarna tólf mánuði nam 12,4% í lok júlí. Þessar tölur koma fram í Hagsjá Landsbankans sem gefin var út í morgun. Hækkun fasteignaverðs frá áramótum er 8,3 prósent en á árinu hafði Hagfræðideildin spáð níu prósenta hækkun og því sé ljóst að hún verði nokkuð meiri.

„Það vakna alltaf upp spurningar við svona aðstæður hvort þetta stefni allt í ógöngur,“ segir Ari. „En ef maður ber þróunina til dæmis saman við árin fyrir hrun þá er verulega mikill munur þar á og skýringin felst einkum í því að fasteignaverðið fylgir miklu betur öðrum stærðum til dæmis þróun kaupmáttar. Á árunum fyrir hrun rauk fasteignaverðið upp úr öllu valdi án þess að vera í tengslum við nokkurn skapaðan hlut og þá má segja að þar sé bólumyndun. Nú er þetta miklu minna og vægara en á árunum fyrir hrun, um 2004 til 2006.“

En hvernig mætti varast bólumyndun í framtíðinni?

„Það sem ræður þessu að mestu eru markaðslögmálin. Það sem dregur fasteignaverðið upp á við er fyrst og fremst að það er miklu meiri eftirspurn en framboð og leiðin til að laga það er mað framboði á nýju húsnæði fyrst og fremst með nýbyggingum,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×