Innlent

Ný skýrsla um leiðir öryrkja til að sækja rétt sinn

Stefán Ó. Jónsson skrifar
VÍSIR/VILHELM
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur skilað Alþingi skýrslu um leiðir öryrkja til að sækja rétt sinn innan stjórnsýslunnar. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Velferðarráðuneytisins.

Í skýrslunni er meðal annars fjallað um kæruheimildir, málskot til dómara og kvartanir til umboðsmanns Alþingis og gefið yfirlit um réttindi sem leiða af örorkumati.

Þar er einnig farið yfir þær reglur sem gilda um ákvarðanatöku innan stjórnsýslunnar og hvaða reglur gilda þegar einstaklingur er ósáttur við þá niðurstöðu sem fæst í máli hans og vill leita réttar síns.

Þá er gefið yfirlit yfir þau réttindi hjá opinberri stjórnsýslu sem verða virk þegar einstaklingur fær örorkumat og hvernig eigi að nálgast þau.

Eins er tilgreint hvert unnt sé að skjóta ákvörðunum um réttindi og skyldur. Loks er ítarlega fjallað um kæruleiðir í málum sem varða verkefnasvið velferðarráðuneytisins og geta varðað réttindi öryrkja með beinum eða óbeinum hætti, hvort sem um er að ræða kæru- og úrskurðarnefndir sem falla undir ráðuneytið eða ákvarðanir sem kæranlegar eru til ráðuneytis.

Skýrsluna í heild sinni má nálgast hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×