Harmageddon

Nútíma danstónlist troðið ofan í hlustendur

Orri Freyr Rúnarsson skrifar
The Prodigy á tónleikum.
The Prodigy á tónleikum. Vísir/Getty
Nýlega birtist viðtal í breska blaðinu The Guardian við þá Liam Howlett og Keith Flint úr hljómsveitinni The Prodigy en viðtalinu spöruðu þeir aldeilis ekki stóru orðin. Þar hélt Flint fram að nýrri danstónlist væri troðið ofan í aðdáendur og öll tónlist samanstæði af sömu öruggu formúlunni og enginn þorði að taka neina áhættu. Hann hélt því einnig fram að enginn hljómsveit þorði að vera hættuleg og plötufyrirtækin tækju ekki neina áhættu þegar kæmi að markassetningu. Liam Howlett hélt svo fram í sama viðtali að The Prodigy væri alveg jafn mikilvæg hljómsveit eins og Blur og Oasis. Hann sagðist þó ekki vera að falast eftir meiri virðingu né heldur að The Prodigy ætti að vera boðið oftar í sjónvarpsþætti, hann vildi einfaldlega koma á framfæri mikilvægi sveitarinnar í breskri rokksögu. En The Prodigy stefna á útgáfu næstu breiðskífu sinnar þann 30. mars næstkomandi.

Nú bendir allt til þess að liðsmenn Metallica séu mættir í hljóðver til að vinna að næstu breiðskífu sinni. Þeir hafa áður sagst vera byrjaðir að semja nýja tónlist fyrir plötuna en nú hafa þeir birt mynd á Instagram sem sýnir Roberto Trujillo með bassann sinn í hljóðveri. Myndi þetta þá vera fyrsta eiginlega breiðskífa Metallica síðan að platan Death Magnetic kom út árið 2008. 

Margir bíða nýrrar plötu sveitarinnar með eftirvæntingu.Vísir/Getty
Hljómsveitin Of Monsters and Men hefur skipt um umboðsskrifstofu en þetta kemur fram á Nútímanum. Heather Kolker hefur verið umboðsmaður sveitarinnar undanfarin ár og er hún nú genginn til liðs við Mick Management umboðsskrifstofuna og hefur hljómsveitin fylgt henni þangað. Sveitin er þó ekki eina íslenska sveitin sem skrifstofan hefur á sínum snærum því þar er Ásgeir einnig. Of Monsters and Men hljómsveitin er nú stödd í Los Angeles þar sem hún leggur lokahönd á næstu breiðskífu sína og er það þungaviktarupptökustjórinn Rich Costey sem stýrir upptökum á nýju plötunni en hann hefur unnið með hljómsveitum á borð við Muse, Interpol, Arctic Monkeys, Nine Inch Nails og fleiri hljómsveitir.

Hljómsveitin Foo Fighters er á tónleikaferðalagi í Suður Ameríku um þessar mundir og þeir létu áhorfendur í Síle ekki slá sig útaf laginu á tónleikum þar í landi í vikunni. Dave Grohl hætti að spila á einum tímapunkti og gerði grín af því að áhorfendur væru alltaf byrjaðir að syngja lögin á undan honum á tónleikunum og það gerðist hvergi í heiminum nema í Síle. Hófu þá áhorfendur að syngja hið þekkta Olé, Olé, Olé stef. Hljómsveitin hafði gaman af þessu og byrjaði að spila undir og syngja með áhorfendum og tilkynntu að þarna hafði nýtt Foo Fighters lag fæðst. En myndband af atburðinum má sjá hér að neðan.








×