Innlent

Níu á spítala eftir að strætó keyrði í gegnum grindverk í Garðabæ

Kjartan Atli Kjartansson og Samúel Karl Ólason skrifa
Strætisvagnabílstjóri og átta farþegar voru fluttir á sjúkrahús eftir að bílstjórinn keyrði útaf við Miðhraun í Garðabæ. Svo virðist sem lítil eða engin slys hafi orðið á fólki, en að sögn slökkviliðsmanna voru allir um borð „í sjokki“. Slysið var tilkynnt klukkan tólf mínútur yfir níu.

Frá slysstað.Vísir / Björn Sveinbjörnsson
Jafnvel er talið að liðið hafi yfir bílstjórann og hann í kjölfarið keyrt í gegnum grindverk. Allir farþegar um borð voru fluttir á spítala, ásamt bílstjóranum, að sögn Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu. Slökkviliðið sendi tækjabíl og tvo sjúkrabíla á staðinn.

Að sögn Reynis Jónssonar, framkvæmdastjóra Strætó, tilkynnti vagnstjórinn málið sjálfur inn til Strætó bs. en farþegi eða vegfarendur höfðu samband við Neyðarlínuna.

„Þetta fór eins vel og gat farið í þessum kringumstæðum,“ segir Reynir. „Það brotnuðu allar rúður í vagninum.“

Að hans sögn mun slysið ekki hafa áhrif á starfsemi Strætó í dag. Nú þegar hefur verið sendur nýr strætisvagn á staðinn sem mun fara beint í að keyra þessa leið. „Þetta hefur lítil sem engin áhrif á þjónustuna sem slíka,“ segir hann.

Strætisvagninn er illa farinn.Vísir / Þorkell Guðmundsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×