Lífið

Neyðarlína Sigrúnar hefur göngu sína á ný

„Þetta eru sjö þættir og í hverjum tökum við fyrir eitt mál, þau eru jafn ólík og þau eru mörg,“ segir dagskrárgerðarkonan Sigrún Ósk Kristjánsdóttir, sem fylgir eftir sögum fólks sem hringt hefur í Neyðarlínuna á ögurstundu í annarri seríu þáttarraðarinnar Neyðarlínan.

„Fyrri þáttaröðin gekk vel og þess vegna langaði mig að gera aðra, og er mjög spennt fyrir því að það fari í loftið,“ segir Sigrún jafnframt, en um er að ræða raunveruleg símtöl viðmælenda þar sem kallað er eftir hjálp. Símtölin eru spiluð og rætt við sjúkraflutningamenn, lækna, björgunarsveitarmenn, neyðarverði og aðstandendur.

Björgunarsveitarmaður sem slasast alvarlega á fjöllum, ung kona sem eignast barn ein á baðherbergisgólfi, sjúkraflutningur í einu versta óveðri sem gengið hefur yfir í áratug, ökumaður sem hafnar á hvolfi í á eftir bílveltu og fjölskyldufaðir sem háls- og hryggbrotnar í sumarbústað er meðal þess sem fjallað verður um í þessari þáttaröð, en sú fyrri var sýnd haustið 2012 og hlaut tilnefningu til Edduverðlauna.

Fyrsti þátturinn verður sýndur þann 21. september á Stöð 2.


Tengdar fréttir

Fyrsta sýnishornið úr Hreinum Skildi

Hreinn skjöldur verður sýndur á Stöð 2 í nóvember. Steindi leikur aðalhlutverkið í þáttunum, ásamt þeim Pétri Jóhanni Sigfússyni og Sögu Garðarsdóttur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×