Innlent

Neitar að taka þátt í kostnaði við flóðljós

Sveinn Arnarsson skrifar
Knattspyrnusamband Evrópu mun hjálpa til við uppbyggingu.
Knattspyrnusamband Evrópu mun hjálpa til við uppbyggingu. Fréttablaðið/ Daníel
Stjórn Reykjavíkurborgar hefur ákveðið að taka ekki þátt í kostnaði Knattspyrnusambands Íslands við uppsetningu á nýjum flóðljósum við Laugardalsvöll.

Áður hafði íþrótta- og tómstundaráð borgarinnar lagt blessun sína yfir samningsdrög þess efnis að borgin greiddi um 50 milljónir á þremur árum til KSÍ vegna uppsetningar ljósanna. Aðeins átti borgarráð eftir að samþykja samningsdrögin. Nú er ljóst að KSÍ mun eitt bera kostnaðinn af uppsetningu nýrra ljósa.

Ný og betri flóðlýsing var krafa sérfræðinga evrópska knattspyrnusambandsins UEFA þegar þeir tóku út vallaraðstæður á Laugardalsvelli síðastliðið vor. Taldi UEFA að það þyrfti að laga lýsinguna til að hægt væri að sýna frá leikjum landsliða í undankeppni Evrópumóts landsliða sem hefst í haust þegar bronslið HM, Hollendingar, kemur til landsins.

Samkvæmt upplýsingum frá Skrifstofu eigna- og atvinnuþróunar Reykjavíkurborgar var hætt við að taka þátt í kostnaðinum þar sem álit borgarlögfræðings væri á þá leið að það gæti verið á svig við innkaupareglur Reykjavíkurborgar. Verkið væri það dýrt að það krefðist útboðs ef Reykjavíkurborg hefði annast verkið sjálft. Því hafi verið sjálfhætt að taka þátt í þessum kostnaði.

S. Björn Blöndal
S. Björn Blöndal, formaður borgarráðs, segir það aldrei hafa verið ætlun Reykjavíkurborgar að taka þátt í kostnaðinum við uppsetningu flóðljósa fyrir svo háa upphæð. Hann telur að hér sé verið að rugla saman tveimur hlutum, annars vegar rekstrarsamningi við KSÍ og hins vegar flóðlýsingu.

Hins vegar bókaði ÍTR um samning við KSÍ um styrk vegna flóðljósakaupa. Þar kom fram að Reykjavíkurborg greiddi 16,6 milljóna króna greiðslur til þriggja ára vegna nýrra flóðljósa. Þetta staðfestir einnig Geir Þorsteinsson við Fréttablaðið þann 4. júní síðastliðinn.

Um sjálf kaupin á nýjum flóðljósum sagði Björn Blöndal að beiðnin um bætta flóðlýsingu hefði ekki komið frá borgaryfirvöldum heldur frá UEFA. „Við hjá borginni óskuðum ekki eftir þessari uppfærslu á flóðljósum heldur Knattspyrnusamband Evrópu. Því er eðlilegt að knattspyrnuhreyfingin beri kostnaðinn en ekki Reykjavíkurborg.“

Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, segir að flóðljósin verði greidd af Knattspyrnusambandi Evrópu, UEFA, og því komi það ekki að sök að Reykjavíkurborg vilji ekki taka þátt í kostnaðinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×