Innlent

Náttúruperlur að tapa gildi sínu vegna álags

Svavar Hávarðsson skrifar
Margar af helstu náttúruperlum Íslands eiga á hættu að tapa gildi sínu, verði ekki brugðist við sívaxandi umferð ferðamanna. Níu svæði eru undir svo miklu álagi að bregðast þarf við tafarlaust. Umhverfisstofnun (UST) hefur kortlagt ástand friðlýstra svæða að beiðni Umhverfisráðuneytisins. Sú mynd sem þar er dregin upp er grafalvarleg. Aðkallandi er að bregðast strax við ef fjölmargar náttúruperlur eiga ekki að bera óafturkræfan skaða af sívaxandi álagi, en friðlýst svæði eru eðli sínu samkvæmt vinsælir áfangastaðir ferðamanna.

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra segir málið aðkallandi og tók það upp á ríkisstjórnarfundi nýlega. "Sú alvarlega staðreynd blasir við að ágangurinn á nokkur af okkar verðmætustu svæðum er orðinn slíkur að þau eru að glata verndargildi sínu, og verða ekki sá segull í framtíðinni sem ferðaþjónustan þarf á að halda."

Umhverfisstofnun segir nauðsynlegt að grípa til tafarlausra aðgerða á níu friðlýstum svæðum. Meðal þeirra eru Gullfoss og Geysir og friðland að Fjallabaki sem nær meðal annars yfir Landmannalaugar og hina vinsælu gönguleið Laugaveginn. Átta önnur svæði eru á válista UST þar sem nauðsynlegt er talið að bregðast við á ýmsan hátt.

Svandís segir að skapa verði grundvöll, til dæmis tekjustofn, til að sinna friðlýstum svæðum betur en hefur verið gert til þessa dags. "Ef þessi svæði sem hér eru sérstaklega nefnd glata verndargildi sínu frekar en nú er orðið getum við staðið frammi fyrir því að við verðum að takmarka aðgang að þeim. Það er niðurstaða sem enginn vill sjá, hvorki ferðaþjónustan né við sjálf."

Svandís segir að vandinn sé slíkur að nauðsynlegt hafi verið að draga hann fram með sérstakri úttekt UST. "Ég óskaði eftir því að það yrði listað upp með skýrum hætti hvaða svæðum sé helst ógnað. Það er forsenda þess að ferðaþjónustan nái að byggja sig upp og verða sú öfluga atvinnugrein sem við viljum treysta á að vinni okkur út úr hruninu."









Gjaldtaka inn á friðlýst svæði hefur verið í umræðunni um nokkurt skeið. Svandís segir þá helst hafa komið til greina að taka upp komugjöld; gjald sem lagt er á ferðamenn sem koma inn í landið. Það hefði þann kost að hægt væri að beina fjármagninu beint til þeirra svæða sem eru undir mestu álagi. Það myndi jafnframt nýtast til að byggja upp á öðrum friðlýstum svæðum og í þjóðgörðunum, að mati Svandísar. "Verndun friðlýstra svæða felst ekki síst í fyrirbyggjandi aðgerðum."

Það vekur athygli í úttekt UST að engin verndaráætlun er til fyrir þau sautján svæði sem eru í mestri hættu. Hins vegar voru öll svæðin sem talin eru í mestri hættu friðlýst á árunum 1975 til 1979 með þeirri undantekningu að Geysir hefur ekki verið friðlýstur. Þar gilda hins vegar sérstakar umgengnisreglur settar af Geysisnefnd.

Friðlýst svæði á Íslandi eru 102 talsins, en umfang þeirra, eðli og ástand er eins misjafnt og svæðin eru mörg. UST hefur nú umsjón með 62 svæðum ef ekki eru með taldir fólkvangar eða önnur verndarsvæði sem eru í umsjón sveitarfélaga eða lögaðila.











Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×