Innlent

Nagli fór í gegnum fót níu ára drengs

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Naglinn fór í gegnum fót drengsins.
Naglinn fór í gegnum fót drengsins. Dagmar Ýr Sigurdórsdóttir
„Naglinn fer bara í gegnum skóinn, í gegnum fótinn og upp hinu megin,“ segir Dagmar Ýr Sigurdórsdóttir en 9 ára gamall bróðir hennar varð fyrir þeirri óskemmtilegu reynslu að stíga á nagla í Skemmtigarðinum í Grafarvogi í gær, nagla sem lá á jörðinni vegna skemmdarverka.

„Starfsmennirnir þarna eru búnir að vera í miklu basli vegna þess að á kvöldin, þegar búið er að loka, koma oft krakkar og skemma hluti og eyðileggja,“ segir Dagmar Ýr. „Bróðir minn var bara þarna að leika sér og það hefur orðið einhver nagli þarna eftir sem starfsmönnum hefur yfirsést þegar þeir hafa verið að hreinsa upp eftir skemmdarverkin.“

Naglinn fór í gegnum fót bróðir hennar sem var snarlega komið á sjúkrahús og er nú á sýklalyfjum vegna hættu á sýkingu. Hún segir að hann sé svolítið aumur en nokkuð brattur. Þetta hafi ef til vill verið meira sjokk en eitthvað annað.

„Hann er ekki stórslasaður en þetta hefur verið sjokk fyrir hann og krakkana, naglinn fór í gegn, það var mikið blóð miðað við hvað sárið var lítið. Þegar við komum á svæðið voru allir krakkarnir sem hann var að leika sér með hágrátandi.“

Ánægð með starfsfólk Skemmtigarðsins

Þau voru þó fljót að kalla á hjálp og segir Dagmar að starfsfólk Skemmtigarðarsins hafi staðið sig afskaplega vel í að hjálpa bróður sínum.

„Krakkarnir hlupu niður í tjald þar sem er starfsmannaaðstaða. Starfsmennirnir bregðast strax við, hlaupa til og bera bróður minn í tjaldið þar sem hringt er á sjúkrabíl. Þau hlúðu vel að honum og við erum þeim mjög þakklát fyrir hvernig þau stóðu að málum. Þau hafa verið í sambandi við okkur. Starfsmennirnir brugðust mjög vel við og gerðu allt rétt.“

Dagmar segir að starfsmenn Skemmtigarðsins hafi sagt þeim að skemmdarverkin í garðinum á kvöldin séu tíð og séu þau einkum framin á litboltavelli Skemmtigarðsins.

„Það er litboltavöllur þarna, þar sem eru felustaðir og annað úr spýtum og svona. Þeir sem eru að koma og skemma þetta eru greinilega að taka þetta í sundur. Spýturnar liggja svo hér og þar og það er víst mikið verk fyrir starfsmennina að hreinsa þetta upp. Þeim hefur bara yfirsést þessi eini nagli.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×