Lífið

Náðu þér á rétta braut á nýju ári

Guðný Hrönn skrifar
Dóri Tul og Rakel Orra hafa mikla reynslu af því að aðstoða fólk við lífsstílsbreytingar.
Dóri Tul og Rakel Orra hafa mikla reynslu af því að aðstoða fólk við lífsstílsbreytingar. Vísir/Anton Brink
Þjálfararnir og lífsstílsnappararnir Dóri Tul og Rakel Orra vita hvað virkar þegar kemur að lífsstílsbreytingum. Lífið fékk þau til að gefa lesendum góð ráð í tilefni þess að á nýju ári fyllast líkamsræktarstöðvar landsins af fólki með metnaðarfull markmið í farteskinu.

Settu þér markmið 

Sjáðu fyrir þér eitt stórt markmið við sjóndeildarhringinn sem þig hefur alltaf langað til þess að ná, skrifaðu það niður og hafðu það sjáanlegt. En á langri leið er auðvelt að fara út af sporinu. Búðu til tímalínu að stóra markmiðinu og á þessa tímalínu setur þú mörg lítil markmið. Hvert markmið sem næst er sigur sem fleytir þér áfram, veitir þér sjálfstraust og orku í að nálgast næsta markmið. Með þessu færðu marga sigra á leiðinni að stóra markmiðinu þínu og leiðin verður bæði auðveldari og skemmtilegri fyrir vikið.

Hreinsaðu til í eldhúsinu 

Til hvers að eiga sælgæti og vörur fullar af transfitusýrum ef þú ert með það að leiðarljósi að borða þær ekki? Þegar hungrið kallar þá grípum við það sem hendi er næst. En það er jafn auðvelt að teygja sig í ávaxtakörfuna eins og í nammiskápinn, en ef skápurinn er tómur, þá leitum við í hollu trefjaríku ávextina sem liggja í körfunni. 



Jákvætt hugarfar skiptir miklu máli þegar fólk gerir lífsstílsbreytingu.
Verslaðu skynsamlega 

Ekki fara í búðina með tóman maga og lágan blóðsykur, það endar með því að þú liggur afvelta á nammiganginum í Bónus því þig mun langa í allan þann sykur sem finnst í búðinni. Gerðu góðan lista með matarplönum heimilisins fyrir alla vikuna svo þú þurfir einungis að gera þér eina ferð í viku í búðina að kaupa inn. Þetta sparar þér bæði tíma og peninga, ásamt því að þú „neyðist“ ekki til þess að panta þér skyndibita vegna þess að það er ekkert til að borða.

Temdu þér jákvætt hugarfar

Það er magnað hvað ein jákvæð hugsun getur komið þér langt. Á hverjum morgni skaltu prófa að finna að lágmarki fimm jákvæða punkta um sjálfan þig, í staðinn fyrir að segja: „Ég get þetta ekki,“ segðu þá: „Hvað þarf ég að gera til þess að geta þetta?“

Byrjaðu að hreyfa þig

Reyndu að finna þér eitthvað sem þú hefur gaman af og/eða hefur áhuga á að gera. Það endist enginn í hreyfingu sem honum finnst leiðinleg. Byrjaðu rólega og skynsamlega því flestir fara of geyst af stað og gefast upp undan álaginu sem því fylgir. Ef þú finnur fyrir óöryggi, leitaðu til þjálfara eða ráðgjafa og fáðu aðstoð. Það er margt fólk sem vinnur við það að hvetja þig áfram og leiðbeina þér í átt að markmiðum þínum.

Dóri og Rakel halda úti vefnum thol.is og sömuleiðis eru þau með Snapchat-ið thol.is, þar veita þau fylgjendum sínum hvatningu og góð ráð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×